Undirritaður hefur verið tvíhliða samningur milli Íslands og Grænlands um gullkarfa. Samningurinn er til þriggja ára og felur í sér skiptinguna 90 prósent fyrir Ísland og tíu prósent fyrir Grænland. Auk þess er gert ráð fyrir 350 tonna afla annarra þjóða á hverju ári samningsins, að því er segir í tilkynningu
Í samningnum er ákveðin nýtingaráætlun sem felur í sér aflareglu, sem er sú hin sama og íslensk stjórnvöld samþykktu á síðasta ári eftir að Alþjóðahafrannsóknaráðið yfirfór hana með tilliti til hámarks langtíma afraksturs og alþjóðlegra varúðarsjónarmiða.
Jafnframt var gerður samningur um landanir grænlenskra skipa í íslenskum höfnum fyrir árið 2015. Geta grænlensk skip á þessu ári landað allt að 50 þúsund tonnum af makríl og fimmtán þúsund tonnum af norsk-íslenskri síld.
„Góð samskipti Íslands og Grænlands á sjávarútvegssviði eru afar þýðingarmikil báðum þjóðum. Þessi samningur mun styrkja enn frekar samstarf þessara þjóða og tryggja ábyrgar veiðar úr þessum sameiginlega stofni þjóðanna,“ segir í tilkynningu frá stjórnvöldum vegna samningsins.
Formaður samninganefndar Grænlands var Emanuel Rosing skrifstofustjóri í grænlenska sjávarútvegsráðuneytinu og formaður þeirrar íslensku var Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.