Ísland fellur um eitt sæti í árlegri fjölmiðlafrelsivísitölu samtakanna Blaðamanna án landamæra og situr nú í 16. sæti, eftir að hafa verið í 15. sæti í fyrra.
Herferð sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja gegn blaða- og fréttamönnum sem fjallað hafa um málefni fyrirtækisins er sérstaklega nefnd í umfjöllun samtakanna um stöðu fjölmiðla á Íslandi.
Þetta er fjórða árið í röð sem Ísland fellur niður listann, eftir að hafa verið í 10. sæti árið 2017, en hin norrænu ríkin raða sér efst á lista.
Noregur er sem fyrr í efsta sæti vísitölunnar, fimmta árið í röð, þrátt fyrir að í umfjöllun Blaðamanna án landamæra komi fram að fjölmiðlar þar í landi hafi kvartað undan því að fá lítinn aðgang að gögnum hins opinbera um heimsfaraldurinn. Finnland er í öðru sæti, Danmörk í þriðja sæti og Svíþjóð í fjórða sæti.
Í umfjöllun samtakanna um Ísland segir, rétt eins og nokkur undanfarin ár, að starfsumhverfi blaðamanna hafi farið versnandi árum saman þar sem samskipti stjórnmálamanna og fjölmiðla hafi súrnað.
Þá segir að efnahagshrunið árið 2008 hafi haft mikil áhrif á fjölmiðla, grafið undan rekstrarforsendum þeirra og sömuleiðis getu þeirra til þess að standast þrýsting frá hagsmunahópum.
Á sama tíma hafi traust til fjölmiðla þó aukist og hlutverk þeirra sem stoðir lýðræðis styrkst. Íslensk löggjöf verndi blaðamenn og tjáningarfrelsið, en meginvandamál íslenskra fjölmiðla haldi áfram að vera skortur á fjármagni. Þess er getið að verið sé að ræðja nýja löggjöf um styrki til einkarekinna fjölmiðla.
Fjallað er um Samherjamálið sérstaklega og segir í umfjöllun samtakanna að sjávarútvegsfyrirtækið hafi árið 2020 farið af stað með fjölmiðlaherferð sem miðaði að því að draga úr trúverðugleika fréttamanna sem fjölluðu um málið.