Ísland er í áttunda sæti yfir þau lönd sem eiga flesta notendur klámveitunar Pornhub, sem er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum, þegar miðað er við fjölda heimsókna á hvern íbúa. Alls voru innlit á hvern íslenskan íbúa á vefinn 95 talsins á síðasta ári.
Mest notkun á veitunni er í Bandarikjunum þar sem innlit á hvern íbúa eru 123. Ísland er á svipuðum slóðum og hin Norðurlöndin á lista Pornhub yfir notkun á vefnum. Noregur er í fimmta sæti á listanum, Svíþjóð í níunda sæti og Danmörk í því tíunda. Þetta kemur fram í samantekt Pornhub yfir árið sem er að líða.Vert er að taka fram að ekkert klámfengið efni er á bakvið hlekkinn hér að undan. Hann vísar inn á síðu sem brýtur niður notkun á klámveitunni í tölfræði.
Notkunin rímar að nokkru leyti við internetnotkun heilt yfir. Fleiri Íslendingar nota til dæmis internetið, miðað við höfðatölu, en þegnar nokkurs annars ríkis í heiminum. Á þeim lista eru Bandaríkjamenn, sem nota Pornhub meira en nokkur annar, í 21. sæti árið 2013.
Reyna að komast inn á almennan markað
Pornhub, sem er með höfuðstöðvar sínar í Kananda, er sú klámveita sem er mest sótt allra í heiminum. Á árinu 2014 var horft á samtals 78,9 milljarða sinnum á myndbönd á veitunni, sem er töluverð aukning frá árinu 2013 þegar heildarfjöldi myndbanda sem horft var á var 63,2 milljarðar. Það þýðir að heimsóknir á vefinn á síðasta ári voru um 5.800 á hverri sekúndu.
Pornhub hefur mikið reynt að fá auglýsendur og notendur til að líta á sig sem almennt fyrirtæki sem bjóði þjónustu í stað þess að vera flokkað sem skítugt klámfyrirtæki. Það hefur líka notað þann gríðarlega fjölda heimsókna sem síðan fær til að reyna að gera það að auglýsa meira aðlandi fyrir auglýsendur. Þessi viðleitni hefur ekki skilað miklu, enda veigra flestir auglýsendur sér við að auglýsa á stöðum sem bjóða upp á jafn umdeilt efni og Pornhub.
Haustið 2013 var kvikmyndin Don Jon reyndar auglýst á síðunni, en hún fjallar um mann sem er háður netklámi.
Skiltið tekið niður
Í október 2014 lét Pornhub síðan setja upp risavaxið auglýsingaskilti á Times Square í New York. Skiltið sýndi mynd af tveimur höndum að mynda hjarta utan um vörumerki Pornhub með yfirfyrirsögninni „All you need is hand“, sem útleggst á íslensku sem „allt sem þú þarft er hönd“.
Auglýsingaskiltið var afrakstur samkeppni sem Pornhub stóð fyrir í febrúar 2014 og miðaði að því að búa til auglýsingar fyrir fyrirtækið sem væri ekki klámfengnar en næðu samt að fanga kjarnastarfsemi þess. Sigurvegari keppninnar, tyrkneski auglýsingamaðurinn Nuri Galver var valinn úr hópi yfir þrjú þúsund þátttakenda. Yfirlýstur tilgangur keppninnar var innreið Pornhub á almennan auglýsingamarkað og að gera vörumerkið sitt þekkt utan þess hóps sem þegar sækir í þjónustu Pornhub.
Til að fylgja skiltinu stóra, sem 16,5×14,6 metrar að stærð, var ráðist í aðra hugmynd sem kom frá Galver. Hún snérist um að láta fólk af mismunandi þjóðernum, með mismunandi hendur, syngja bítlalagið „All You Need Is Love“ með nýju viðlagi sem útleggst „All You Need Is Hand“. Hægt er að horfa á myndband af gjörningnum hér að neðan.
http://youtu.be/XeHwQ-Jln60
Skiltið fékk ekki að standa og var tekið niður tveimur dögum eftir að það var sett upp. DoubleTree Hilton hótelið, sem auglýsingaskiltið hékk framan á, setti sig á móti því.