Íslensk stjórnvöld gerðu samning á síðasta ári við skrifstofu samnings Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD) um óskilyrt kjarnaframlag til þriggja ára (2021-2023) sem nemur 200 þúsund Bandaríkjadölum á ári, eða rúmlega 25,8 milljónum króna árlega.
Stofnunin er ein fjögurra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að auka framlög til í samræmi við lokayfirlýsingu COP26 loftslagsráðstefnunnar í Glasgow sem fram fór síðastliðið haust. Öll framlögin miða að loftslagsaðgerðum í þróunarríkjum.
Í fyrsta sinn sem Ísland styður stofnunina með beinu fjárframlagi
Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, síðar Miðflokksins, hóf störf hjá stofnuninni í síðasta mánuði. Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að fjárveitingin tengist ekki starfsmannahaldi skrifstofunnar.
„Framlagið til skrifstofunnar var hluti af þeirri aukningu framlaga til þróunartengdra loftslagsverkefna sem tilkynnt var um á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í desember 2020,“ segir í svari ráðuneytisins. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem Ísland styður stofnunina með beinu fjárframlagi, umfram skylduframlag.
Ísland er á meðal stofnenda vinahóps Eyðimerkursamningsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem kom því til leiðar að verndun, endurheimt og stöðvun landeyðingar hlyti ríkari sess í Heimsmarkmiðunum en áætlað var. Síðastliðið ár hefur Ísland einnig leitt samningaviðræður um ályktun er varðar eyðimerkurmyndun og landgræðslu.
Í svari ráðuneytisins kemur einnig fram að utanríkisþjónustan hafi unnið vel með skrifstofu samningsins í New York um árabil. Samstarfið megi rekja til stofnunar vinahóps gegn eyðimerkurmyndun árið 2014 sem Ísland hefur leitt ásamt Namibíu allar götur síðan. Þar segir einnig að íslensk stjórnvöld hafa um árabil lagt áherslu á umhverfis- og loftslagsmál í opinberri þróunarsamvinnu og er landgræðsla á meðal áhersluþátta.
Gunnar Bragi sagði skilið við stjórnmálin síðasta haust og settist á skólabekk við Háskólann á Bifröst. Hann sótti um starf sérstaks ráðgjafa framkvæmdastjóra UNCCD síðasta sumar og fór í atvinnuviðtal í október ásamt nokkrum öðrum. Honum bauðst starfið með skömmum fyrirvara í síðasta mánuði og hóf þegar störf.
Ráðningin er til eins árs, að minnsta kosti til að byrja með. Gunnar Bragi er búsettur í Bonn í Þýskalandi þar sem stofnunin hefur aðsetur og sagði í samtali við Kjarnann eftir að ráðning hans tók gildi að lífið eftir pólitík væri „æðislegt“.