Íslenska karlalandsliðið í fótbolta tapaði fyrir Tékkum í kvöld, 2-1, á Doosan leikvanginum í Plzen. Tékkar voru mun sterkara liðið allan leikinn og gerðum Íslendingum lífið leitt með stífri pressu. Íslenska liðinu gekk illa að halda boltanum innan liðsins, en byrjuðu leikinn þó vel og komust yfir með marki Ragnars Sigurðssonar á 9. mínútu leiksins.
Eftir það pressuðu Tékkar stíft það sem eftir var af fyrri hálfleiknum og tókst að jafna á síðustu mínútu fyrri hálfleiks með skalla frá Pavel Kaderábek. Ísland fékk síðan á sig skelfilegt sjálfsmark á 61. mínútu þegar boltinn fór af Jóni Daða Böðvarssyni, í Hannes Þór Halldórsson markvörð og þaðan í netið.
Gylfi Sigurðsson var nærri búinn að jafna fyrir Ísland en skot hans fór í stöngina. Jóhann Berg Guðmundsson fékk síðan algjört dauðafæri undir lok leiksins en Petr Cech, varamarkvörður Chelsea, sá við honum.
Ísland er nú í 2. sæti riðilsins á eftir Tékkum með 9 stig, en Tékkar hafa fullt hús stiga, 12 stig. Hollendingar, sem unnu Letta í dag 6-0, eru í þriðja sætinu með 6 stig.