Íslandsbanki hagnaðist um 23,7 milljarðar króna á árinu 2021. Arðsemi eigin fjár var 14,2 prósent og sem var vel yfir tíu prósent markmiði bankans. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 54,3 prósent í 46,2 prósent milli ára.
Eigið fé Íslandsbanka var 203,7 milljarðar króna um síðustu áramót og eiginfjárhlutfall bankans 25,3 prósent. Útlán til viðskiptavina Íslandsbanka jukust um 7,9 prósent á síðasta ári. Þá aukningu má að mestu rekja til aukinna umsvifa á húsnæðismarkaði. Vaxtamunur bankans var 2,4 prósent. Hreinar vaxtatekjur voru 34 milljarðar króna og hækkuðu um tvö prósent milli ára. Þóknanatekjur hækkuðu hins vegar um 22,1 prósent og voru samtals 12,9 milljarðar króna. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans sem birtur var nú síðdegis.
Á grundvelli þessarar afkomu ætlar Íslandsbanki að greiða hluthöfum sínum 11,9 milljarða króna í arð. Þar af fer 65 prósent til stærsta einstaka eigandans, íslenska ríkisins, eða rúmlega 7,7 milljarðar króna. Þeir sem eiga 35 prósent hlut í bankanum fá svo samanlagt tæpa 4,2 milljarða króna í arðgreiðslu. Auk þess stefnir stjórn bankans að því að greiða út 40 milljarða króna í umfram eigið fé á næstu 12-24 mánuðum. Sú vegferð mun hefjast með því að stjórn Íslandsbanka mun leggja til við aðalfund bankans að hefja endurkaup á bréfum fyrir 15 milljarða króna á næstu mánuðum.
Gríðarleg ávöxtun á þeim hlut sem var seldur
Því er ljóst að Íslandsbanki ætlar að skila um 52 milljörðum króna til hluthafa sinna á næstu tveimur árum. 18,2 milljarðar króna af þeirri upphæð mun fara til þeirra sem eiga þann 35 prósent hlut sem íslenska ríkið seldi í fyrrasumar samhliða því að Íslandsbanki var skráður á markað. Ríkið fékk 55,3 milljarða króna fyrir hlutinn þegar hann var seldur. Virði bréfa í Íslandsbanka hefur aukist um 60 prósent frá skráningunni.
Eignarhluturinn sem íslenska ríkið seldi hefur því hækkað um 33,2 milljarða króna frá skráningu, en sú virðisaukning lendir hjá nýjum eigendum. Samanlagt hafa þeir því aukið virði eigna sinna um þá tölu, eiga von á 4,2 milljörðum krónum í arð vegna frammistöðu síðasta árs auk þess sem stjórn Íslandsbanka ætlar að skila þeim 14 milljörðum króna til viðbótar á næstu einu til tveimur árum. Fyrirsjáanlegur ávinningur nýrra eigenda, miðað við núverandi markaðsvirði, nemur því samtals 51,4 milljörðum króna. Það er 93 prósent af því verði sem greitt var fyrir 35 prósent hlut í Íslandsbanka í júní.
Ríkisstjórnin ætlar að selja eftirstandandi 65 prósent eignarhlut sinn í Íslandsbanka að fullu á næstu tveimur árum. Til stendur að selja um helming útistandandi hlutar ríkisins í sumar og ríkið reiknar með að fá um 75 milljarða króna fyrir hann, samkvæmt því sem fram kom í fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs. Það sem eftir stæði yrði svo selt 2023 ef markaðsaðstæður yrðu ákjósanlegar.
Allir stóru bankarnir þrír hafa nú birt ársreikninga sína vegna ársins 2021. Samanlagður hagnaður þeirra á því ári var 81,2 milljarðar króna.