Hagnaður Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi nam 5,9 milljörðum króna, sem þýðir að hagnaður hans á fyrstu sex mánuðum ársins nam 11,1 milljarði. Bankinn hagnaðist um rúmlega tveimur milljörðum meira á fyrstu sex mánuðum ársins en hann gerði í fyrra.
Arðsemi eigin fjár bankans nam 11,7 prósentum á öðrum ársfjórðungi, sem er bæði yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og spám greiningaraðila. Í tilkynningu eru helstu ástæður góðrar afkomu sagðar vera sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri og jákvæð virðisbreyting útlána.
Hreinar vaxtatekjur bankans jukust um 21,8 prósent á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tímaskeið í fyrra og er sú hækkun sögð skýrast af hærra vaxtaumhverfi og stækkun inn- og útlánasafns bankans. Vaxtamunur bankans var 2,9 prósent á tímabilinu, en 2,4 prósent á sama tíma í fyrra.
Kostnaðarhlutfall bankans, kostnaður hans sem hlutfall af tekjum, var 42,7 prósent sem er lægri kostnaðarhlutfall en bankinn einsetur sér að hafa. Eigið fé bankans nam 203,7 milljörðum króna í lok júní 2022 og var eiginfjárhlutfall hans 21,5 prósent, miðað við 25,3 prósent í lok síðasta árs.
Í tilkynningu frá bankanum er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra að Íslandsbankafólk geti sannarlega verið ánægt með niðurstöðuna á öðrum ársfjórðungi.