Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam rúmum 3,6 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og arðsemi eigin fjár bankans var 7,7 prósent á ársgrundvelli. Þetta er mikill viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra, en bankinn tapaði 1,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðung síðasta árs.
Eigið fé bankans nam 185 milljörðum króna í lok mars og heildar eiginfjárhlutfall bankans nam 21,9 prósenti, sem er yfir markmiði bankans um að hafa heildar eiginfjárhlutfall á bilinu 17,5-19 prósent.
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir í tilkynningu að ánægjulegt sé að sjá að afkoman sé í þróun við það sem var á seinni hluta síðasta árs.
„Fjárfestingar undanfarinna ára í innviðum og stafrænum lausnum og aukin stafræn notkun viðskiptavina leiddu til lækkunar á kostnaðarhlutfalli bankans á milli ára. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 2,8% og útlán til viðskiptavina jukust um 2,3% frá árslokum. Aukninguna í útlánum má aðallega rekja til áframhaldandi aukinnar eftirspurnar á húsnæðislánamarkaði en mun styttri biðtími er eftir afgreiðslu húsnæðislána en áður og mælist mikil ánægja með þjónustuna. Við finnum að eftirspurnin er líka orðin fjölbreyttari og nú býður bankinn viðskiptavinum sínum græn húsnæðislán við fjármögnun á vistvænu húsnæði á hagstæðari kjörum,“ er haft eftir Birnu í tilkynningu bankans.
Hreinar vaxtatekjur bankans námu 8,2 milljörðum króna á þessum fyrstu þremur mánuðum ársins, samanborið við 8,6 milljarða króna. á sama tíma í fyrra. Hækkun í hreinum þóknanatekjum var 14,9 prósent á milli ára, en þær fóru úr 2,5 milljörðum upp í 2,9 milljarða. Bankinn segir hækkunina tilkomna vegna aukningar í bæði þóknanatekjum og -gjöldum.
Stjórnunarkostnaður bankans hækkaði lítillega á milli ára og nam 5,9 milljörðum króna á fjórðungnum. Hækkun í launalið skýrist einkum af samningsbundnum kjarahækkunum og starfslokagreiðslum á meðan annar rekstrarkostnaður lækkar á milli ára, segir bankinn.
99 prósent allra snertinga við viðskiptavini stafrænar
Kostnaðarhlutfall bankans lækkar á milli ára og var 52 prósent á fyrsta fjórðungi samanborið við 62,9 prósent á sama tíma í fyrra. Aukning í notkun á stafrænum lausnum spilar þar lykilhlutverk. Haft er eftir bankastjóranum Birnu í tilkynningu að nú séu 99 prósent allra snertinga bankans við einstaklinga orðnar stafrænar.
Batnandi efnahagsaðstæður segir bankinn að skýri mun lægri neikvæða virðisbreytingu útlána en á sama tímabili í fyrra, eða 518 milljónir samanborið við rúma 3,5 milljarða í upphafi árs 2020. Útlán til viðskiptavina bankans jukust um 2,3 prósent á fjórðungnum en þar vegur þyngst að meira er lánað fyrir húsnæðiskaupum. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 19 milljarða króna. eða 2,8 prósent frá áramótum.
Spennandi tímar séu framundan
Haft er eftir Birnu í tilkynningu bankans að staða hans sé sterk og undirstöður traustar. „Efnahagsreikningur bankans er traustur með eigin- og lausafjárhlutföll vel yfir innri markmiðum og kröfum eftirlitsaðila. Fjárhagsleg markmið bankans hafa verið uppfærð með það að markmiði að gefa skýrari mynd af þróun og áherslum í stefnu bankans.“
Að lokum ávarpar Birna væntanlega sölu ríkisins á hluta bankans með útboði og skráningu hluta á hlutabréfamarkað.
„Fjármála- og efnahagsráðherra hefur á opinberum vettvangi lýst því yfir að unnið sé að skráningu hlutabréfa bankans á skipulegan verðbréfamarkað, að undangengnu útboði, og að stefnt sé að því að hún eigi sér stað í júní. Það er því ljóst að spennandi tímar eru framundan,“ er haft eftir Birnu.