Verðmæti útflutnings í marsmánuði nam 63,4 milljörðum króna á sama tíma og fluttar voru til landsins vörur fyrir 52,1 milljarð króna. Vöruskiptin, það er munur á verðmæti útflutnings og innflutnings, voru þannig hagstæð um 11,3 milljarða króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands sem birtar voru í dag.
Greining Íslandsbanka fjallar um hagstæð vöruskiptin og bendir á að útflutningur í mars sé sá mesti frá upphafi í einum mánuði. Þá er afgangurinn, um 11,3 milljarðar króna, sá mesti frá því í nóvember 2013. Aukinn útflutningur skýrist helst af útflutningi sjávarafurða fyrir 27,4 milljarða króna og útflutningi iðnaðarvara fyrir 33,7 milljarða króna. Innflutningur í mars var yfir meðallagi síðustu tólf mánaða en þó á svipuðu róli, segir greining Íslandsbanka.
Nýjar tölur Hagstofunnar benda einnig til að met hafi verið slegið í vöru-útflutningi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Innflutningur nam 159,5 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins en virði útflutnings var 165,2 milljarðar króna. Afgangur af vöruskiptum var þannig 5,7 milljarðar til samanburðar við 3,5 milljarða á sama tímabili í fyrra.
„Hér þarf þó að hafa í huga að umfangsmikil flugvélakaup lituðu vöruskiptatölur febrúarmánaðar, þótt þar sé frekar um bókhaldslegt atriði að ræða en viðskipti sem endurspegla gjaldeyrishreyfingar,“ segir greining bankans. Ef skip og flugvélar eru undanskilin tölunum þá var vöruskipta-afgangur á fyrstu þremur mánuðunum 25,4 milljarðar. Það er meira en fjórfaldur afgangur sama tímabils 2014. Það skýrist meðal annars af auknum útflutningi, hagstæðari verðþróun á sjávarafurðum og áli, betri loðnuvertíð og líklega auknum útflutningi bolfisks milli ára.
Hagstæð vöru- og þjónustuviðskipti á árinu
Greiningardeildin spáir því að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum gæti orðið á bilinu 180 til 200 milljarðar króna á þessu ári. „Hagstæðari viðskiptakjör, tiltölulega myndarleg loðnuvertíð og lítilsháttar aukning fiskveiðikvóta milli ára skýra aukinn vöruútflutning, og vart þarf að taka fram hversu þungt hraður vöxtur ferðaþjónustunnar vegur í auknum þjónustuútflutningi. Á móti má búast við auknum innflutningi vegna vaxandi innlendrar eftirspurnar og aukinnar aðfanganotkunar útflutningsgreina á árinu.
Þessi myndarlegi vöru- og þjónustuafgangur sem við spáum mun svo væntanlega hjálpa til að viðhalda nettóinnflæði gjaldeyris á markaði, styðja þar með við gengi krónu og liðka fyrir losun hafta, enda safnar Seðlabankinn jafnt og þétt gjaldeyri í forða sinn þessa dagana líkt og raunin var í fyrra,“ segir greiningardeild Íslandsbanka.