Þegar Íslendingur fer til útlanda þá eyðir hann að jafnaði 223 þúsund krónum með debet- og kreditkortunum sínum. Frá árinu 2008 hefur upphæðin farið hækkandi, en þó aðeins lítillega sé horft til eyðslunnar á föstu verðlagi. Á síðasta ári voru utanlandsferðir íslenskra ríkisborgara um Leifsstöð alls 400 þúsund talsins. Greiðslukortavelta erlendis nam á árinu 2014 rúmlega 89 milljörðum króna. Það er um tíu milljörðum meira en árið 2013, þegar Íslendingar fóru 365 þúsund ferðir til útlanda.
Á síðasta ári eyddi hver landsmaður um það bil 14 þúsund krónum meira í hverri utanlandsferð en hann gerði árið 2008. Rétt er að taka fram að upphæðirnar ná til veltu á debet- og kreditkortum, bæði í verslunum og úttektum í bönkum erlendis.
Verslunarferðir fyrir jólin
Tölur Hagstofunnar sýna einnig hvernig Íslendingar nota greiðslukortin mismikið eftir árstíma. Mestu er eytt í utanlandsferðum í nóvember og desember, eflaust spila jólagjafainnkaup stórt hlutverk, og þá hefur hver ferð í febrúar reynst ansi dýr, í samanburði við aðra mánuði. Að jafnaði eyddi hver Íslendingur um 226 þúsund krónum í utanlandsferð í febrúar á árunum 2008 til 2014. Sumarmánuðirnir eru síðan ódýrari, eins og sést á grafinu hér fyrir neðan. Að jafnaði hefur ferðin í júlí verið um 90 þúsund krónum ódýrari en utanlandsferðin í desember.
Auglýsing