Íslensk stjórnvöld hafa gert athugasemd við mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á aðgerðum Íslands til að takast á við efnahagslegar afleiðingar kóronuveirufaraldursins. Í nýbirtu mati sjóðsins kom fram að beinn stuðningur ríkisfjármála, án tillits til sjálfvirkra sveiflujafnara, til að takast á við efnahagsáhrif faraldursins hér á landi væri einna minnstur í Evrópu.
Í umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði að stuðningur hérlendis væri undir 2,5 prósent af landsframleiðslu. Önnur lönd sem voru í þeim flokki eru Tyrkland, Albanía, Hvíta-Rússland, Svartfjallaland, Bosnía og Hersegóvína og Moldóva. Mestur hefur beini stuðningurinn verið í Bretlandi, Þýskalandi, Austurríki og Grikklandi, þar sem hann er yfir tíu prósentum af landsframleiðslu.
Katrín sagði í svari við óundirbúinni fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, á þingi í gær að hún teldi að útgjöld ríkisins til aðgerða væru ein og sér ekki raunhæfur mælikvarði á eitt né neitt nema þau væru sett í samhengi við árangurinn af þeim aðgerðum. „En við höfum gert athugasemd við þetta mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þau hafa til að mynda ekki tekið með í reikninginn fjárfestingarátak, framlög til námstækifæra, viðbótarhækkun atvinnuleysisbóta, styrki til rannsókna og þróunar og svo framvegis. Þannig að þessi mælikvarði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virðist byggður á mjög þröngri afmörkun sem er reyndar því miður allt of algengt þegar um er að ræða til að mynda eðli fjárfestinga og við áttum ágætis samtal um einmitt í umræðum um fjármálaáætlun.“
Mun minni halli í fyrra en reiknað var með
Þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 var að finna í því áætlun um rekstur ríkissjóðs í fyrra, á árinu 2020. Tekjur ríkissjóðs voru áætlaðar 769 milljarðar króna en útgjöld 1.038 milljarðar króna. Það þýddi að fjárlagahallinn átti að verða 269,2 milljarðar króna, sem yrði mesti halli frá því að byrjað var að mæla slíka í íslenska ríkisrekstrinum. Meiri en á hrunárunum 2008 og 2009.
Niðurstaðan var sú að hallinn á ríkissjóð var mun minni en áætlað var við framlagningu fjárlagafrumvarpsins, eða 201 milljarðar króna. Fjárlagahallinn 2020 var því 68,2 milljörðum krónum minni en ríkisstjórnin reiknaði með, eða fjórðungi minni.
Opinber fjárfesting dróst saman á Íslandi
Í útgáfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um ríkisfjármál, sem birt var í fyrrahaust, voru þróuð ríki hvött til að stórauka opinberar fjárfestingar til að komast fljótar upp úr kórónuveirukreppu. Í útgáfunni stóð að hagkvæmt sé að taka lán fyrir slíkri fjárfestingu út af lágum vöxtum og uppsafnaðri þörf.
Fjárfesting hins opinber á Íslandi, sem samanstendur að uppistöðu af ríkissjóði og sveitarfélögum, dróst hins vegar saman milli áranna 2019 og 2020. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru áætluð fjárfestingarútgjöld 104,4 milljarðar króna í fyrra og drógust saman um sex milljarða króna milli ára.
Hinir svokölluðu sjálfvirku sveiflujafnarar virkuðu líka til hækkunar á ákveðnum útgjöldum og lækkunar á skatttekjum. Helsti útgjaldaliðurinn sem þeir hækka eru kostnaður við rekstur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna útgreiðslu almennra atvinnuleysisbóta. Sá kostnaður fór úr 23 milljörðum króna árið 2019 í 54 milljarða króna í fyrra sem er aukning um 136 prósent.