Bandaríski vísissjóðurinn Menlo Ventures leiðir 3 milljón Bandaríkjadala fjárfestingu í íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Fractal 5, sem stofnað var af Guðmundi Hafsteinssyni, fyrrum yfirmanni vöruþróunar hjá Google. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem barst fjölmiðlum fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni tekur íslenski fjárfestingasjóðurinn Crowberry Capital einnig þátt í fjárfestingunni, sem er ígildi 384 milljóna króna.
Fractal 5 var stofnað árið 2020 og þar starfa nú fjórir starfsmenn, en fyrirtækið segist búast við að bæta við fleiri starfsmönnum á næstunni. Gert er ráð fyrir því að frumútgáfa af hugbúnaðarlausn fyrirtækisins fari í prófanir innan skamms, en hún á að fela í sér tækni til að auðvelda fólki að eiga í samskiptum við einstaklinga og hópa sem það vill rækta samband við, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Meðstofnandi Guðmundar í Fractal 5 er Björgvin Guðmundsson. Í um 13 ár starfaði hann í fjölmiðlum á Íslandi, síðast sem ritstjóri Viðskiptablaðsins. Í byrjun 2014 keypti hann ásamt fleirum KOM ráðgjöf og starfaði þar sem ráðgjafi fram til ársins 2020. Þá lét hann af daglegum störfum fyrir KOM og tók við sem stjórnarformaður fyrirtækisins.
Ásamt Guðmundi og Björgvin starfa Sara Björk Másdóttir og Kristján Ingi Mikaelsson hjá Fractal 5. Sara flutti frá Kísildalnum í Kaliforníu í ágúst 2020 og hóf þá strax störf hjá fyrirtækinu. Kristján Ingi er fyrrverandi framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands, en hann gegndi því starfi frá 2018 til síðasta árs.
Frá ritstjórn: Guðmundur Hafsteinsson á 4,83 prósenta hlut í Kjarnanum.