Breska fjártæknifyrirtækið Revolut hóf bankastarfsemi á Íslandi í dag í gegnum innlánsstofnun á vegum þess í Litháen. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu sem send var á fjölmiðla.
Samkvæmt tilkynningunni hafa innlánsstofnanir á vegum fyrirtækisins öðlast sérhæft bankaleyfi sem gerir þeim kleift að stunda starfsemi sína á öllu Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Því hófst bankastarfsemi þess í tíu Evrópulöndum – þar með talið Íslandi – í dag.
Revolut var stofnað í Bretlandi árið 2015 og bauð upp á millifærslur og gjaldmiðlaviðskipti í gegnum smáforrit án þóknana. Árið 2020 stofnaði bankinn svo innlánsstofnanir í Póllandi og Litháen, auk annarra aðildarríkja Evrópusambandsins. Alls eru viðskiptavinir fyrirtækisins 18 milljónir, en þar af eru sex þúsund þeirra á Íslandi.
Fyrirtækið segir að viðskiptavinir þess hérlendis muni nú njóta innistæðutryggingar upp að 100 þúsund evrum, eða um 14,7 milljónum króna, á ábyrgð litháiska ríkisins.
Enn er ekkert fyrirtæki sem stundar bankastarfsemi með aðsetur hér á landi, samkvæmt lista Fjármálaeftirlits Seðlabankans um starfsemi erlendra aðila. Hins vegar hefur fjöldi erlendra fyrirtækja leyfi til að stunda bankastarfsemi og/eða verðbréfaviðskipti hérlendis.
Seðlabankinn sendi ábendingu til Kjarnans um bankaleyfi Revolut og áréttar að ekki sé um að ræða sérstakt bankaleyfi sem sé útgefið á Íslandi. Félagið, sem er með starfsleyfi sem lánastofnun í Litháen hefur hins vegar fengið heimild til að veita þjónustu sína á Íslandi.
Enn fremur sagði bankinn að það væri rangt eða a.m.k. villandi að tala um Revolut sem fjártæknifyrirtæki, þar sem einungis innlánastofnanir geta tekið á móti innlánum frá viðskiptavinum hérlendis. Þá vekur hann athygli á því að fyrirtækjum utan evrópska efnahagssvæðisins, m.a. frá Bretlandi sé ekki heimilt að veita þjónustu hér á landi nema að undangengnu samþykki Seðlabankans.
Aths ritstjórnar kl. 14:54: Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að Revolut væri eina erlenda fyrirtækið sem stundaði bankastarfsemi hér á landi. Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við það.
Aths ritstjórnar kl: 17:18: Fréttin hefur verið uppfærð með ábeningu Seðlabankans.