Novator, fjárfestingarfélag sem kennt er við stærsta eiganda þess, Björgólf Thor Björgólfsson, á eignir sem metnar eru á 950 milljónir evra, um 150 milljarða króna. Á móti eru skuldir en ljóst er að Björgólfur Thor hefur komið betur út úr skuldauppgjöri sínu, sem tilkynnt var í síðustu viku að væri lokið, en flestir aðrir risaskuldarar hins fallna íslenska bankakerfis.
Í tilkynningunni sem Björgólfur Thor og Novator sendu frá sér vegna loka skuldauppgjörsins segir: „Um 100 manna her lögfræðinga, endurskoðenda og annarra sérfræðinga vann að skuldasamkomulaginu. Ég [Björgólfur Thor] lagði allar eignir mínar undir. Þá fengu lánadrottnar aðgang að öllum bankareikningum mínum og allra félaga minna nokkur ár aftur í tímann og gátu þannig gengið úr skugga umað engar eignir voru undanskildar. Sú rannsóknarvinna erlendra sérfræðinga (forensic accounting) stóð í tæpt eitt og hálft ár og lauk í apríl 201. Ég fullyrði að svo gagnsæ vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð í uppgjörsmálum neinna annarra í íslensku bankakerfi.“
Sá aðgangur sem Björgólfur Thor veitti var að svokölluðum sameignarsjóðum sem hann átti og voru skráðir á aflandseyjunni Jersey. Eignir sem voru geymdar í þessum sjóðum hlupu á milljörðum króna og sú verðmætasta var hlutur Björgólfs Thors í pólska símafyrirtækinu Play. Í raun hefði Björgólfur Thor getað sleppt því að veita aðgengi að þessum eignum, haldið þeim fyrir sig og haldið sig við að þær yrðu ekki hluti af skuldauppgjörinu. En þá hefði að minnsta kosti hluti kröfuhafa hans ekki samþykkt skuldauppgjörið og áframhaldandi vera Novator í hluthafahópi Actavis verið í mikilli hættu. Þar sem Actavis er langverðmætasta eign Novators þótti það ekki skynsamlega teflt. Því var opnað fyrir aðgang að sjóðunum.
Rannsóknarvinna erlenda sérfræðinga fór fram að kröfu þrotabúa Landsbankans. Enginn erlendur kröfuhafi fór fram á slíka vinnu. Hún var framkvæmd af Alix Partners í London, sem er eitt stærsta fyrirtæki á sviði fjárhagslegrar rannsóknarvinnu í heiminum í dag. Til að byrja með var samið um að Alix Partners mætti kanna peningafærslur yfir ákveðinni lágmarksfjárhæð. Það reyndist hins vegar vera mikil vinna að sigta út hvaða færslur mættu rannsaka og hverjar ekki og því var á endanum ákveðið að leyfa Axis að fá óheftan aðgang að öllum reikningum, persónulegum bankareikningum og bankareikningum allra eignarhaldsfélaga Novator-samstæðunnar, samkvæmt upplýsingum frá Novator. Alls unnu 3-4 aðilar að rannsókninni sem stóð yfir frá því í janúar 2011 og lauk á endanum í apríl 2012. Allar þær eignir sem rannsakendur fundu voru undir í skuldauppgjörinu.
Öll vinna við rannsóknarvinnuna var greidd af þrotabúi Landsbankans, þar sem hann var sá kröfuhafi sem krafðist þess að sú vinna færi fram. Kjarninn óskaði eftir upplýsingum um hvað sú rannsókn hefði kostað, hver ávinningurinn af henni hefði verið og hvort sambærileg rannsókn hefði verið framkvæmd á öðrum stórum skuldurum bankans. Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar Landsbankans, kom því á framfæri við Kjarnann að slitastjórnin vildi ekki tjá sig um málefni einstakra aðila og því fengust ekki svör við fyrirspurninni.
Þetta er aðeins hluti af umfjölluninni um málefni Björgólfs Thors. Umfjöllunina í fullri lengd má finna í Kjarnanum hér.