Alls eru 18,4 prósent íslenskra heimila áskrifendur að streymiþjónustunni Netflix þrátt fyrir að hún sé ekki formlega í boði á Íslandi. Það er sama hlutfall heimila og er með áskrift að Morgunblaðinu, stærsta áskriftarblaði landsins. Þetta kemur fram í könnun MMR sem gerð var í mars 2015 og sagt er frá í skýrslu nefndar sem greindi þróun á starfsemi RÚV ohf. frá stofnun, þann 1. apríl 2007, og fram til dagsins í dag.
Í skýrslunni kemur einnig fram að 29,1 prósent heimila sé með áskrift að Stöð 2. Heimili landsmanna eru um 125 þúsund talsins. Það þýðir að áskriftir að Stöð 2 séu rúmlega 36 þúsund. SkjárEinn, sem opnaði línulega dagskrá sína 1. október síðastliðinn, er ekki langt undan. Samkvæmt könnuninni voru 22,8 prósent heimila með áskrift að stöðinni í mars síðastliðnum. Það þýðir að um 28.500 heimili landsins greiddu fyrir SkjáEinn.
Áskrift að íþróttastöðvum Stöðvar 2 er einnig tilgreind í skýrslunni. Alls voru 10,9 prósent heimila með áskrift að Stöð 2 Sport og 10,8 prósent með áskrift að Stöð 2 Sport 2, sem sýnir m.a. enska boltann. Vert er að taka fram að 365 miðlar, sem á og rekur Stöð 2, selur áskriftir að stöðvunum í vafningum með áskrift að Stöð 2. Því er töluverður hluti áskrifenda að íþróttastöðvunum einnig taldir með áskrifendum Stöðvar 2.
Athygli vekur að 3,9 prósent heimila í landinu er með áskrift að sjónvarpsstöðvum Sky. Það þýðir að tæplega fimm þúsund íslensk heimili greiða fyrir áskrift að Sky.
Netflix er streymiþjónusta þar sem hægt er að nálgast mikið magn kvikmynda, sjónvarpsþátta, barnaefnis, heimildarmynda og annars áhorfanlegs efnis. Þjónustan hefur þann augljósa kost fram yfir línulega sjónvarpsdagskrá að notendur geta horft á það efni sem þeir vilja þegar þeir vilja í nánast hvaða tæki sem þeir vilja. Áskrift að Netflix er auk þess mun ódýrari en áskrift að þeim sjónvarpsstöðum sem hægt er að gerast áskrifandi að á Íslandi.
Gjörbreytt neyslumynstur
Í skýrslu nefndarinnar er farið ítarlega yfir þær breytingar sem orðið hafa í neyslumynstri fjölmiðla á undanförnum árum, með tilkomu internetsins og tæknibyltinga á borð við snjallsíma. Þar segir að framboð og dreifing fjölmiðlaefnis hafi samhliða aukist gríðarlega á síðastliðnum áratug.
Ísland er ekki undanþegið þessari breytingu. Þannig hefur heildaráhorf fólks á aldrinum 18 til 49 ára á sjónvarp dregist saman um tæp 36 prósent frá árinu 2009. Ef einungis er horft á línulega dagskrá hefur það tæplega helmingast. Hraði þessara breytinga er að aukast. Í Bandaríkjunum var til að mynda mesti mælanlegi samdráttur í sjónvarpsáhorfi ungs fólks á síðasta ári.
Þegar aldurshópurinn 12 til 80 ára er skoðaður kemur í ljós að sjónvarpsáhorf á Íslandi hefur minnkað um 28 prósent frá árinu 2009. Áhorf á fréttir hefur dregist saman um tæp 17 prósent, langmest hjá fólki undir fimmtugu þar sem samdrátturinn er 32 prósent.
Hlustun á útvarp hefur hins vegar haldist nokkuð stöðug undanfarin ár. Heildarhlustun hefur einungis dregist saman um sex prósent frá árinu 2009.
Allir prentmiðlar í frjálsu falli
Það eru ekki einungis sjónvarpsstöðvar sem eiga undir högg að sækja vegna breytinga á neyslumynstri. Lestur prentmiðla hefur einnig hríðfallið, sérstaklega hjá ungu fólki.
Kjarninn fjallaði ítarlega um stöðu prentmiðla í sögulegu samhengi í fréttaskýringu í september. Þar kom fram að lestur þeirra hefur minnkað hratt á undanförnum árum. Þannig hefur heildarlestur Morgunblaðsins dregist saman um 35 prósent á sex árum, lesendum Fréttablaðsins hefur fækkað um 22 prósent frá 2010 og lestur Fréttatímans hefur aldrei verið lægri en hann er um þessar mundir. Þá hefur lestur á DV aldrei verið lægri en hann mældist í ágúst 2015 í 40 ára sögu blaðsins.
Staða prentmiðla á Íslandi er samt sem áður afar sterk í alþjóðlegu samhengi og þeir taka enn til sín stóran hluta af auglýsingabirtingum.