Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður verður efstur á lista Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi. Frá þessu var fyrst sagt á vef Austurfréttar á mánudag og vísaði miðillinn til heimilda sinna, en á þriðjudagsmorgun barst staðfesting frá flokknum.
Í samtali við Kjarnann í gær hvorki játaði Jakob Frímann því né neitaði að það stæði til að hann leiddi lista flokksins í kjördæminu og sagðist ekki tilbúinn að segja neitt um málið, það væri ekki tímabært.
Sagðist hann telja „ansi bratt“ að birta frétt um málið án þess að rætt hefði verið við hann fyrst, en staðfesti síðan seint í gærkvöldi við Kjarnann að hann ætlaði fram fyrir hönd flokksins.
„Ég hef hrifist af stefnumálum Flokks fólksins þar sem áhersla er lögð á að útrýma fátækt og óréttlæti á Íslandi. Það er sjálfsögð krafa að allir fái lifað mannsæmandi lífi í einu af auðugustu samfélögum heims. Hér á enginn að búa við bág kjör að afloknu ævistarfi, hlúa þarf betur að þeim sem hafa lent í áföllum eða búa við skerta orku og allir eiga að njóta jafnra tækifæra til menntunar og tómstundastarfs. Alvöru velferðarsamfélag byggist á heilbrigðu samhengi milli verðmætasköpunar og mannúðar,“ er haft eftir Jakobi Frímanni í tilkynningu frá Flokki fólksins.
Fyrrverandi varaþingmaður og leiddi lista Íslandshreyfingunnar árið 2007
Jakob Frímann, sem er landskunnur tónlistarmaður og fyrrverandi miðborgarstjóri í Reykjavíkurborg, er ekki ókunnugur þátttöku í stjórnmálastarfi. Hann var eitt sinn virkur innan Alþýðuflokksins og tók þátt í prófkjörum hjá Samfylkingunni árið 2003 og 2007 og settist á þing sem varaformaður fyrir flokkinn undir lok árs 2004.
Í alþingiskosningunum árið 2007 bauð hann sig fram fyrir Íslandshreyfinguna og var oddviti á lista hennar í Suðvesturkjördæmi, en flokkurinn fékk engan þingmann kjörinn. Íslandshreyfingin, sem Ómar Ragnarsson leiddi, rann síðan inn í Samfylkinguna árið 2009.
Á undanförnum árum hefur Jakob Frímann unnið að uppbyggingu ferðaþjónustu í Össurárdal í grennd við Höfn í Hornafirði, en fram hefur komið í fréttum að þar standi til að fjárfesta í lúxushóteli og annarri ferðaþjónustutengdri starfsemi fyrir milljarða króna.
Athugasemd ritstjórnar: Fréttin var uppfærð eftir að staðfesting barst á því að Jakob Frímann ætlaði fram.