Rapparinn og viðskiptajöfurinn Jay Z hefur keypt fyrirtækið sem stendur að WiMP-tónlistarveitunni. Verðmiðinn var 56 milljónir dala, um 7,5 milljarða króna. WiMP rekur sambærilega þjónustu og Spotify og er einn helsti samkeppnisaðili þess þegar kemur að streymiþjónustu fyrir tónlist. Frá þessu er greint í Financial Times.
WiMP býður upp á um 25 milljónir laga og um 75 þúsund tónlistarmyndbönd. Fyrirtækið er með yfir hálfa milljón áskrifendur í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi og Póllandi. Það á enn töluvert í land með að ná Spotify sem býður upp á þjónustu sína í 58 löndum, er með yfir 15 milljónir borgandi viðskiptavini og um 45 milljónir til viðbótar sem notast við ókeypis þjónustu fyrirtækisins.
Ekki fyrsti rapparinn í streymisgeiranum
Móðurfélag WiMP heitir Aspiro og er með höfuðstöðvar í Svíþjóð. Jay Z er að kaupa það í gegnum fyrirtækið Project Panther Bidco. Hann er ekki fyrsti þekkti rapparinn sem hellir sér út í streymisviðskipti. Dr. Dre stofnaði heyrnartóla- og tónlistarstreymisfyrirtækið Beats.
Hann seldi það síðan til Apple í maí síðastliðnum á þrjá milljarða dali, um 400 milljarða króna.