Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri í Flórída, hefur birt öll tölvupóstsamskipti sem hann átti þegar hann var ríkisstjóri á nýrri heimasíðu, jebbushemails.com. Á heimasíðunni er líka að finna fyrsta kaflann í bók sem hann hyggst gefa út á internetinu, sem byggir á tölvupóstsamskiptunum.
„Í anda gagnsæis birti ég tölvupóstsamskipti frá því að ég var ríkisstjóri hér. Sumir eru fyndnir; sumir eru alvarlegir; sumir voru skrifaðir í reiði. En allir eru þeir hér svo þú getir lesið þá og gert upp hug þinn,“ segir Bush á heimasíðunni.
Fastlega er búist við því að Jeb Bush sækist eftir útnefningu Repúblikana sem forsetaframbjóðandi flokksins í næstu forsetakosningum. Útgáfa bókarinnar er sögð liður í þeirri vegferð. Washington Post orðar það sem svo að um leið og birting póstanna sé loforð um gagnsæi nú þegar hann íhugi að bjóða sig fram til forseta sé hún líka viðvörun til mögulegra andstæðinga hans. Hann sé að setja fordæmi.
Það vekur einnig athygli að vefsíðan og fyrsti kafli bókarinnar hafa einnig verið þýdd á spænsku.
Bush var þekktur fyrir að vera alltaf með Blackberry símann sinn við höndina. Hann er sagður hafa eytt allt að 30 klukkutímum á viku í að lesa og senda tölvupósta. Í tölvupóstsamskiptunum eru fjölmörg dæmi um að hann svari sjálfur alls konar tölvupóstum, allt frá starfsumsóknum til reiðilestra vegna verka hans.
Þótt póstarnir hafi verið gerðir opinberir í dag fékk Washington Post þá í desember síðastliðnum með vísan í upplýsingalög. Póstarnir eru því opinber gögn og hafa gagnrýnendur bent á það að Bush hafi alla tíð verið meðvitaður um að einhvern daginn yrðu þessi gögn aðgengileg.