Jeb Bush, frambjóðandi í forvali Repúblikanaflokksins til forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016, hefur safnað mestu kosningafé af öllum forsetaframbjóðendum, alls um 114,4 milljónum dollara, jafnvirði um 15,4 milljarða króna. Sá frambjóðandi sem hefur safnað næst mestu er Hillary Rodman Clinton, sterkasti frambjóðandinn í forvali Demókrata. Framboð hennar hefur safnað um 63 milljónum dollara, jafnvirði um 8,5 milljarða króna.
Frestur flestra framboða til að skila gögnum um fjárhagsmál rann út í gær, miðvikudag, en sérstök nefnd á vegum ríkisins heldur utan um hversu mikla fjármuna er aflað og hversu miklu er eytt. Nefndin mun allt fram að kosningum kalla reglulega eftir gögnum um fjármál framboðanna. NY Times er meðal þeirra fjölmiðla sem fjalla um málið í dag með myndrænni framsetningu. Listinn hér að neðan er unninn úr umfjöllun bandaríska blaðsins. Í þriðja dálki hafa upphæðir verið færðar í íslenskar krónur.
Frambjóðandi | Hefur safnað (í milljónum dollara) | Hefur safnað (í milljónum króna) |
Jeb Bush (R) | 114,4 | 15.444 |
Hillary Clinton (D) | 63,1 | 8.519 |
Ted Cruz (R) | 52,3 | 7.061 |
Marco Rubio (R) | 40,7 | 5.495 |
Rick Perry (R) | 17,9 | 2.417 |
Bernie Sanders (D) | 15,2 | 2.052 |
John Kasich (R) | 11,5 | 1.553 |
Ben Carson (R) | 10,6 | 1.431 |
Mike Huckabee (R) | 8 | 1.080 |
Rand Paul (R) | 6,9 | 932 |
Jeb Bush, bróðir George Bush yngri, fyrrum forseta Bandaríkjanna, hefur fyrst og fremst safnað peningum í gegnum utanaðkomandi hópa, svokallaða PAC-hópa sem eru ekki á vegum Bush en styðja hann með miklum fjármunum frá fyrirtækjum, þrýstihópum og sterkefnuðum einstaklingum. Alls hefur Jeb Bush fengið 103 milljónir dollara frá slíkum hópum. Aðrir frambjóðendur sem hafa fengið stærstan hluta með sama hætti eru Repúblikarnir Ted Cruz, Marco Rubio og Rick Perry. Þeir hafa safnað 38 milljónum, 31,9 milljónum og 16,8 milljónum dollara með þessum hætti.
Hillary Clinton hefur fengið um 15,6 miljónir dollara frá PAC-hópum. Ef litið er til hversu mikið framboðin sjálf hafa safnað þá trónir Clinton efst, samtals hafa 47,5 milljónir dollara runnið beint til framboðsins. Á eftir henni kemur Bernie Sanders, sem einnig er í framboði fyrir Demókrata og hefur sótt á í skoðanakönnunum undanfarnar vikur. Sanders er á vinstri væng bandarískra stjórnmála og hefur meðal annars talað gegn miklum áhrifum fjármagns í stjórnmálabaráttunni í landinu. Ríflega 80 prósent af þeim tveimur milljörðum króna sem framboð hans hefur safnað, hafa komið frá einstaklingum sem gefa 200 dollara eða minna. Tvö hundruð dollarar eru rúmlega 25 þúsund krónur.
Þá birtir NY Times einnig yfirlit yfir hversu miklu frambjóðendurnir hafa eytt í baráttunni til þessa, en yfirlitið nær til 30. júní 2015. Auðkýfingurinn umdeildi Donald Trump hefur eytt um 75 prósent af þeim 1,4 milljónum dollara sem kosningaskrifstofa hans hefur haft til umráða fram til þessa. Repúblikaninn Ben Carson hefur eytt 5,9 milljónum dollara, eða um 64 prósent af kosningafé, og Rick Santorum hefur eytt um 400 þúsund dollurum. Það jafngildir um 62 prósentum af kosningasjóði hans.