Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, ætlar ekki að bjóða sig fram sem forsetaframbjóðandi demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Hann tilkynnti þetta á blaðamannafundi í Rósagarðinum í Hvíta húsinu rétt í þessu, ásamt konu sinni Jill og Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Hann ætlar hins vegar að taka virkan þátt í kosningabaráttunni með því að láta í sér heyra og reyna að hafa sem mest áhrif, segir hann. Hann hafi hugsað málið með fjölskyldu sinni undanfarna mánuði og komist að þeirri niðurstöðu að bjóða sig ekki fram, tíminn fyrir það sé liðinn.
Biden ætlar að nota síðustu fimmtán mánuði sína í embætti varaforseta til þess að vinna að baráttunni gegn krabbameini. Biden-hjónin misstu son sinn, Beau, úr krabbameini í vor.