Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, segist ekki hafa persónulega þekkt forstöðumenn þeirra fyrirtækja sem voru hluti af viðskiptanefnd sem fylgdi henni í opinbera heimsókn til Kína vorið 2013. Tillaga að skipun nefndarinnar hafi komið frá sendiherra Íslands í Peking og Íslandsstofu. „Ég þekki forstöðumenn þessara fyrirtækja eða fulltrúa þeirra í þessari ferð ekki persónulega né hef átt við þá samskipti af neinu tagi en hitt einhverja þeirra á fundum eins og viðskiptaþinginu sem haldið var í tengslum við þessa heimsókn til Kína,“ segir Jóhanna í samtali við Kjarnann.
Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að flestir fyrirrennarar hans hafi verið viðstaddir undirritanir á viðskiptasamningum íslenskra fyrirtækja ytra á umliðnum áratugum og að forseti Íslands hafi gert það ótal sinnum. Fyrirtæki eigi þó aldrei að njóta fjárhagslegra tengsla við stjórnmálamenn.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur legið undir ámæli fyrir að aðstoða fyrirtækið Orku Energy á erlendri grundu þrátt fyrir fjárhagsleg tengsl við stjórnarformann fyrirtækisins. Illugi hefur sagt allar ásakanir um óeðlilegheit og vænta spillingu vegna þessa vera fráleitar og ítrekað bent á að aðrir ráðamenn hafi veitt Orku Energy sambærilegan stuðning á erlendum vettvangi og hann gerði. Hefur hann nefnt Jóhönnu Sigurðardóttur, og Össur Skarphéðinsson sem dæmi um ráðamenn sem það hafi gert.
Jóhanna Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson voru bæði viðstödd undirritun samninga við Kína í apríl 2013.
Illugi getur ekki orða bundist
Í grein í Morgunblaðinu í morgun vísar Illugi í orð Gests Páls Reynissonar, forstöðumanns Stofnunar stjórnsýslu og stjórnmála við Háskóla Íslands,sem hann lét falla í viðtali við RÚV í vor þegar hann sagði að það hefði „í raun og veru þótt sérstakara ef hann myndi neita að kynna það á þeim forsendum að leigusalinn hans tengdist fyrirtækinu með einum eða öðrum hætti.“ Illugi segir í greininni að hann sé hjartanlega sammála Gesti og geti „ekki orða bundist um að benda á hversu langur vegur er frá þessum ummælum og þeim svigurmælum sem fallið hafa að undanförnu.“
Gagnrýnendur hafa bent á að Haukur Harðarson, stjórnarformaður Orku Energy, sé ekki einvörðungu leigusali Illuga heldur hafi hann veitt honum mikla fjárhagslega aðstoð þegar ráðherrann þurfti að takast á við fjárhagsleg áföll. Auk þess séu þeir nánir vinir og það skapi í sjálfu sér vanhæfi til að aðstoða fyrirtæki Hauks á erlendri grundu.
Sú aðstoð sem Haukur veitti fólst í að kaupa íbúð Illuga af honum á 53,5 milljónir króna árið 2013 og leigja honum hana síðan til baka. Ástæða þessa voru fjárhagsvandræði sem ráðherrann hafði ratað í vegna gjaldþrots fyrirtækisins Sero og tekjuleysi á meðan að hann vék af þingi vegna rannsóknar á sjóði 9, peningamarkaðssjóði Glitnis þar sem Illugi var stjórnarmaður fyrir hrun.
Auk þess starfaði Illugi sem ráðgjafi fyrir Orku Energy á árinu 2011 og fékk greitt fyrir 5,6 milljónir króna fyrir skatta. Illugi upplýsti um þau hagsmunatengsl í hagsmunaskráningu sinni á vef Alþingis.
Tvívegis viðstaddur
Illugi var viðstaddur þegar Orka Energy skrifaði undir samstarfssamning við kínverska héraðið Xianyang og Sinopec Star Petroleum um þróun á jarðvarmanýtingu og frekari útþennslu á hitunarkerfum í Xianyang. Undirritun samningsins fór fram á Íslandi í desember 2013, eftir að Illugi varð ráðherra. Fyrir hönd Orku Energy undirritaði Haukur Harðarson samkomulagið.
Í desember 2013 var Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra, viðstaddur þegar Orka Energy skrifaði undir samstarfssamning við kínverska héraðið Xianyang og Sinopec Star Petroleum um þróun á jarðvarmanýtingu og frekari útþennslu á hitunarkerfum í Xianyang. Undirritun samningsins fór fram á Íslandi. Fyrir hönd Orku Energy undirritaði Haukur Harðarson, stjórnarformaður félagsins, samkomulagið. Mynd: Orkaenergy.com
Illugi heimsótti svo Kína í lok mars síðastliðins. Á meðal þeirra sem voru með í för í þessari ferð ráðherrans til Kína voru fimm fulltrúar Orka Energy. Einn þeirra var Haukur Harðarson. Á öðrum degi heimsóknar sinnar, þann 22. mars, kynnti hann sér jarðvarmaverkefni í Xionxian héraði, sem unnin eru af SGEG, sem Orka Energy China á 49 prósent hlut í.
Þann 25. mars hitti Illugi Fu Chengyu, stjórnarformann Sinopec. Samkvæmt dagskrá ferðar ráðherrans, sem Hringbraut hefur birt opinberlega, tóku fimm aðilar utan Illuga þátt í fundinum með Fu Chengyu. Þrír þeirra voru íslenskir embættismenn. Hinir tveir voru frá Orku Energy. Annar þeirra var Haukur Harðarson.
Jóhanna þekkti ekki forstöðumenn fyrirtækjanna
Bæði Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra, voru viðstödd þegar skrifað var undir fríverslunarsamning við Kína fyrir hönd Íslands þann 15. apríl 2013. Undirskriftin var hluti af opinberri heimsókn Jóhönnu til Kína. Með í för var viðskiptanefnd og á meðal þeirra sem voru í þeirri viðskiptanefnd voru fulltrúar frá Orku Energy. Jóhanna segir að hún hafi ekki komið nálægt vali á viðskiptanefndinni heldur hafi tillaga um hana komið frá sendiherra Íslands í Peking og Íslandsstofu. „Ég þekki forstöðumenn þessara fyrirtækja eða fulltrúa þeirra í þessari ferð ekki persónulega né hef átt við þá samskipti af neinu tagi en hitt einhverja þeirra á fundum eins og viðskiptaþinginu sem haldið var í tengslum við þessa heimsókn til Kína,“ segir Jóhanna í samtali við Kjarnann.
Össur Skarphéðinsson segir að flestir fyrirrennarar hans hafi verið viðstaddir undirritanir á viðskiptasamningum íslenskra fyrirtækja ytra á umliðnum áratugum og að forseti Íslands hafi gert það ótal sinnum. Fyrirtæki eigi þó aldrei að njóta fjárhagslegra tengsla við stjórnmálamenn. „Það er alsiða að þungavigtarráðherrar Evrópuþjóða gangi miklu lengra í að styrkja viðskiptatengsl einstakra fyrirtækja við fjarlægar þjóðir, einkum þar sem stjórnkerfið er mjög miðstýrt. Má rifja upp nýlegar fréttir af því í breskum fjölmiðlum að Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, er um þessar mundir sjálfur að reyna að afla fjármagns frá Kína í tíu tilgreind verkefni í norðaustur-Englandi“.