Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur að Íslendingar eigi að endurskoða afstöðu sína gegn Rússum ef Evrópusambandið (ESB) er ekki tilbúið að lækka tolla á íslenskar afurðir. Þetta koma fram í Vikulokunum á Rás 1 og í frétt á vef RÚV.
Innflutningsbann Rússa, sem nú gildir einnig um íslenskar vörur, hefur valdið miklum titringi hér á landi enda miklir viðskiptahagsmunir í húfi fyrir íslenskan sjávarútveg. Rússlandsmarkaður er stór markaður fyrir uppsjávartegundir, ekki síst makríl, og er heildar útflutningsverðmæti afurða á ári hverju nálægt þrjátíu milljörðum króna.
Íslensk stjórnvöld hafa til þessa stutt efnahagslegar þvingunaraðgerðir ESB, Bandaríkjanna og NATO, sem Rússar hafa svarað með innflutningsbanni.
Jón sagði í Vikulokunum að í ljósi ríkra hagsmuna þyrfti hugsanlega að endurmeta afstöðuna gagnvart Rússum ef ESB sýndi ekki skilning á stöðu Íslands.