Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrum hæstaréttardómari, segir að hann hafi ekki veitt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra, ráðgjöf um hvernig hún skyldi haga samskiptum sínum við Stefán Eiríksson, fyrrum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.
Kjarninn sagði frá því í gær að umboðsmaður Alþingis hafi enn hvorki fengið gögn né upplýsingar um þá lögfræðilegu ráðgjöf sem Hanna Birna kvaðst sjálf hafa fengið innan ráðuneytisins um hvernig haga skyldi samskiptum við lögregluna á meðan rannsókn lekamálsins stóð yfir. Þetta kom fram í áliti umboðsmanns varðandi frumkvæðisathugun hans á samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar við rannsókn lekamálsins.
Í frétt Kjarnans kom líka fram að Jón Steinar hafi veitt Hönnu Birnu vegna lekamálsins og að hann hafi staðfest það með yfirlýsingu í lok ágúst. Hann segir að sú ráðgjöf hafi ekki með neinum hætti snúist um hvernig hún skyldi haga samskiptum sínum við Stefán. „Fram kom á þessum tíma [lok ágúst] að ég hefði veitt Hönnu Birnu aðstoð við að svara erindi frá umboðsmanni Alþingis um þessi samskipti hennar við lögreglustjórann. Meðal annars hafði ég símsamband við Stefán til að bera undir hann lýsingu í væntanlegu bréfi Hönnu Birnu til umboðsmanns á þessum samskiptum til að tryggja að þar yrði í engu hallað réttu máli. Staðfesti Stefán í samtalinu að rétt væri frá greint.“
Ráðgjöf úr innanríkisráðuneytinu
Í áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram að eftirlit umboðsmanns lýtur einvörðungu að þeirri ráðgjöf sem ráðherrar fá innan stjórnsýslunnar. Hann hafi því verið að óska eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu um þá lögfræðilegu ráðgjöf sem hún kvaðst hafa fengið í innanríkisráðuneytinu.
Í álitinu segir: „Í bréfum innanríkisráðherra til mín hefur ráðherra vísað til lögfræðilegrar ráðgjafar sem ráðherra hafi fengið innan sem utan ráðuneytisins um samskipti sín við lögreglustjórann í tengslum við umrædda rannsókn. Ég tek fram strax í upphafi að það leiðir af lögum um umboðsmann Alþingis að eftirlit umboðsmanns lýtur aðeins að þeirri ráðgjöf sem ráðherrar fá innan stjórnsýslunnar. Í bréfum mínum og á fundum með innanríkisráðherra hef ég óskað eftir upplýsingum frá ráðherra um þessa lögfræðilegu ráðgjöf sem hann kveðst hafi fengið í innanríkisráðuneytinu. Ég hef þar haft í huga annars vegar að á ráðherra hvílir lögum samkvæmt skylda til að leita ráðgjafar og hins vegar að það heyrir undir eftirlit umboðsmanns að ráðgjöf opinberra starfsmanna til ráðherra sé rétt og í samræmi við lög.“