Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum dómari við Hæstarétt, vill að Ólöf Nordal innanríkisráðherra, sem fer með dómsmál í ríkisstjórninni, höfði mál á hendur Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Hæstaréttar. Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás eitt fyrr í dag.
Jón Steinar gaf út bók á síðasta ári sem heitir Í krafti sannfæringar. Þar sagði hann meðal annars frá því að hann telji að þáverandi meirihluti Hæstaréttar hafi brotið lög með því að beita sér gegn því að Jón Steinar kæmi inn í réttinn, en hann var skipaður dómari í Hæstarétt í lok september 2004.
Jón Steinar sagði í Vikulokunum að hann geti sannað þessar ávirðingar en að hann muni ekki leggja fram ítarlegri sannanir nema að tilefni verði til. „Það sem kemur mér kannski meira á óvart er að fjölmiðlarnir hafi ekki staðið sig betur. Vegna þess að mér finnst þetta vera tíðindi[...]Þetta eru alla vega frásagnir af atburðum í opinberu lífi um misnotkun á valdi þar sem síst skyldi[...]Það sem ég lýsi í bókinni eru auðvitað freklegt brot gegn starsskyldum hæstaréttardómara. Mér fannst það alveg skelfilegt fyrir mig og ég vona að öllum finnist það.“
Segir Markús ekkert vita hvað hann eigi að segja
Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, er sá eini sem enn er í réttinum sem kom að hinum meintu lögbrotum sem Jón Steinar greinir frá í bók sinni. Fjölmiðlar hafa óskað eftir því að Markús svari ávirðingum Jóns Steinar en það hefur hann ekki viljað gera. Dæmi um slika viðleitni er hægt að sjá hér. Þá var frétt um málið í Morgunblaðinu í morgun þar sem bæði Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Markús Sigurbjörnsson neituðu að tjá sig um málið.
Jón Steinar sagði það ekki koma honum á óvart að Markús vilji ekki tjá sig. „Ástæðan fyrir því er einföld. Hann veit ekkert hvað hann á að segja um þetta. Þetta eru réttar lýsingar á átburðarrás fyrir rúmum tíu árum síðan. Og þá er auðvitað best ef að menn vita ekki hverju þeir eiga að svara að segjast engu vilja svara. Það er allt satt sem þarna er sagt“.
Jón Steinar telur réttast að höfða mál á hendur Markúsi til embættismissis og að það ætti að vera innanríkisráðherra sem höfði það mál. „Auðvitað þarf að fá einhver svör og kannski ætti innanríkisráðuneytið bara að inna Hæstarétt eftir svörum við þessum ásökunum“.