Stofnandi Wikileaks uppljóstrunarsíðunnar, Julian Assange, segist reiðubúinn að gangast undir DNA-próf vegna rannsóknar á meintum kynferðisbrotum hans í Svíþjóð. Þetta kemur fram á vefsíðu sænska Saksóknaraembættisins.
Prófið verður tekið í tengslum við yfirheyrslu sem mun að öllum líkindum fara fram í sendiráði Ekvador í London þar sem Assange hefur dvalið sem pólitískur flóttamaður í tvö ár. Allan þann tíma hafa sænsk yfirvöld farið fram á að Assange yrði yfirheyrður í Svíþjóð, en vegna gagnrýni heima fyrir og þeirrar staðreyndar að tíminn er að renna út hafa þau nú breytt afstöðu sinni. Ekki er ljóst hvenær yfirheyrslan fer fram.
Haustið 2010 kærðu tvær konur Assange til lögreglu vegna meinta kynferðisbrota en hann hefur staðfast haldið fram sakleysi sínu. Í september sama ár fór hann frá Svíþjóð og í kjölfarið var gefin út handtökuskipun og beiðni um að bresk yfirvöld myndu aðstoða við að flytja hann til yfirheyrslu í Svíþjóð. Sumarið 2012 leitaði Assange hælis í sendiráði Ekvador í Lundúnum þar sem hann hefur dvalið síðan í eiginlegu stofufangelsi. Stanslaus lögregluvakt hefur verið fyrir utan sendiráðið því ef Assange yfirgefur húsið er bresku lögreglunni skylt að handtaka hann.
Ágreiningur um hvar yfirheyrslan skuli fara fram
Lögfræðingar Assange hafa gagnrýnt óbilgirni sænskra yfirvalda varðandi það hvar yfirheyrslan skuli fara fram. Þeir óttast að Assange verði framseldur til Bandaríkjanna eftir handtöku við komuna til Svíþjóðar. Í mars samþykkti sænski saksóknarinn Marianne Ny hins vegar að yfirheyrslan gæti farið fram í London. Þetta kom í kjölfar mikillar gagnrýni frá bæði háttsettum lögmönnum í Svíþjóð og dómstóla sem sögðu að hörð afstaða saksóknara hindraði í raun framgöngu málsins. Í gær birtust svo fréttir af því í sænskum miðlum að Assange hefði fyrir sitt leyti samþykkt að verða yfirheyrður í London og í dag barst tilkynning frá sænskum yfirvöldum vegna DNA-rannsóknarinnar. Þar kemur fram að Assange hafi lagt fram vissar kröfur en um leið og gengið hafi verið úr skugga um að þær hindri ekki rannsóknina verði óskað eftir leyfi til að yfirheyrslan geti farið fram í London. Ekki er vitað hvenær þetta geti orðið.
Lögmaður Assange sagði í viðtali við sænska Expressen í dag að DNA-prófið væri tekið með munnsköfu og í raun afar einfalt. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um samskipti sín við Assange og sagði þau falla undir trúnað milli lögmanns og skjólstæðings.