Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), kynnti í morgun viðbragðsáætlun við straumi flóttamanna til Evrópu. Áætlunin gerir ráð fyrir að 120 þúsund hælisleitendur flytjist frá Grikklandi, Ítalíu og Ungverjalandi til annarra ríkja ESB. Af þessum fjölda hælisleitenda tekur Þýskaland við um 31 þúsund, Frakkland við um 24 þúsund manns og Spánn við um 15 þúsund manns.
Áður höfðu sambandsríkin samþykkt kvóta sem gerði ráð fyrir að flytja um 40 þúsund hælisleitendur frá Grikklandi og Ítalíu til annarra Evrópuríkja. Ný áætlun framkvæmdastjórnar ESB tekur þannig alls til 160 þúsund hælisleitenda í löndunum tveimur auk Ungverjalands. Junker hvatti þjóðir sambandsins til að gangast við settum kvótum. Hér að neðan má sjá hvernig kvóti dreifist milli landanna, samkvæmt áætlun framkvæmdastjórnarinnar.
Those migrant quotas by country. (Ireland, which has opt-out, says it will accept at least 600 relocated migrants.) pic.twitter.com/0DAwjBgHCE
Auglýsing
— Tom Nuttall (@tom_nuttall) September 9, 2015
Í árlegri stefnuræðu sinni fyrir Evrópuþinginu í morgun viðurkenndi Junker að fyrri áætlun ESB, um að lönd taki við alls 40 þúsund hælisleitendum, sé úrelt og dugi skammt. Hann sagði Evrópu vera í huga flóttamanna staður vonar og að það sé eitthvað sem Evrópubúar eigi að vera stoltir af en ekki óttaslegnir yfir. Þrátt fyrir mörg deilumál þá sé Evrópa stöðugasti og ríkasti staður heims. Evrópa verði að hjálpa þeim sem flýji í dag stríð. Junker benti á að í dag telji flóttafólk aðeins 0,11 prósent íbúa Evrópu.
„Merkel“ truflaði Junker
Heldur óvenjulegur atburður átti sér stað á Evrópuþinginu í morgun þegar ítalski þingmaðurinn Gianluca Buonanno reis úr sæti sínu, með andlitsgrímu af Angelu Merkel, kanslara Þýskaland, og tók í hendina á Junker. Í umfjöllun Mashable um atvikið þá liggur ekki fyrir hvað Evrópuþingmanninum gekk nákvæmlega til en það vakti nokkra kátínu í þingsal. Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.