Jurassic World, nýjasta kvikmyndin um risaeðlurnar í hinum svokallaða Júragarði Steven Spielberg, er að slá flest aðsóknarmet í Bandaríkjunum. Fréttamiðillinn Business Insider greinir frá málinu.
Myndin var fyrst sýnd vestan hafs á fimmtudagskvöldið og sló þá strax aðsóknarmet Universal kvikmyndaversins, vegna miðasölu á svokallaða fimmtudagsforsýningu. Miðasala á myndina nam þá 18,5 milljónum bandaríkjadala, eða ríflega 2,4 milljörðum íslenskra króna.
Formleg frumsýning Jurassic World var í Bandaríkjunum á föstudaginn, en þá skilaði miðasala á myndina rúmum 64 milljónum bandaríkjadala í kassann, sem er stærsti frumsýningardagur kvikmyndar vestan hafs til þessa.
Enn á eftir að taka saman tölur fyrir miðasölu á kvikmyndina um helgina, en talið er að myndin hali inn yfir 200 milljónum dala yfir helgina í miðasölutekjur bara í Bandaríkjunum. Ef fram fer sem horfir, og spár ganga eftir, mun risaeðlumyndin þar með setja met hvað varðar tekjur af miðasölu.
Kvikmyndin var sömuleiðis frumsýnd á heimsvísu um helgina, og rakaði þar inn 60 milljónum bandaríkjadala í 66 löndum. Með miðasölutekjunum á heimsvísu og miðasölu frá því á miðvikudaginn, þegar myndin var forsýnd í nokkrum borgum Bandaríkjanna, hefur miðasala á Jurassic World nú þegar skilað tæplega 213 milljónum bandaríkjadala í kassann og helgin ekki liðin.
Jurassic World kostaði 150 milljónir dala í framleiðslu og var leikstýrt af Colin Trevorrow, sem átti fyrir aðeins eina kvikmynd í fullri lengd á ferilskránni, hina stórskemmtilegu og frumlegu Safety Not Guaranteed.
Nýjasta bíómyndin um Júragarðinn er að mælast þokkalega fyrir hjá kvikmyndagagnrýnendum. Þá gefur til að mynda IMDB myndinni 7,7 í einkunn, og kvikmyndasíðan Rotten Tomatoes gefur henni 70%.