Í kærunni, sem var send út á fimmtudag, er þess krafist að Alþingi staðfesti ekki kjörbréf Birgis og þess í stað verði landskjörstjórn falið að gefa út kjörbréf til handa Ernu Bjarnadóttur sem skipaði annað sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.
Þegar Birgir greindi frá vistaskiptum sínum yfir í Sjálfstæðisflokkinn 9. október taldi hann fullvíst að Erna hygðist fylgja fordæmi hans. Henni hafi síðan snúist hugur. Í kærunni segir að þessi framkoma undirstriki ódrengskap Birgis, það er að hann hafi haldið því fram í fjölmiðlum að Erna hygðist fylgja honum án þess að hún hafi sjálf lýst því yfir fyrst.
Ákvörðun Birgis um að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, sem tók honum opnum örmum, hefur verið afar umdeild og hefur hann legið undir ámæli fyrir að hafa blekkt kjósendur, sérstaklega þar sem hann vísaði í næstum þriggja ára gamalt mál, Klausturmálið svokallaða, sem rökstuðning fyrir ákvörðun sinni.
Kjósendur Miðflokksins keyptu köttinn í sekknum
„Ljóst er að kjósendur Miðflokksins í Suðurkjördæmi keyptu köttinn í sekknum þar sem Birgir hafði hvergi getið þess í aðdraganda kosninganna að unnið væri gegn honum innan flokksins eða að hann teldi sig ekki eiga samleið með öðrum oddvitum Miðflokksins,“ segir í kærunni. Þar segir einnig að flestir hljóti að vera sammála um að það sé bæði óheiðarlegt og ólýðræðislegt að villa á sér heimildir í kosningum til Alþingis. Ef ekki verði gripið til aðgerða megi reikna með að fleiri slíkar uppákomur eigi sér stað í komandi kosningum.