Alþýðusamband Íslands kallar eftir því að atvinnuleysisbætur hækki samhliða bótum almannatrygginga í nýju frumvarpi sem felur í sér mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu. Að öðru leyti hvetur sambandið til þess að frumvarpið nái fram að ganga.
„Með frumvarpinu er ráðist í mótvægisaðgerðir vegna hratt vaxandi verðbólgu sem nú mælist 7,2% og fela aðgerðir í sér hækkun bóta almannatrygginga, hækkun húsnæðisbóta og sérstakan barnabótaauka. Sambandið telur gagnrýnivert að ekki sé stefnt að því að hækka bætur atvinnuleysistrygginga samhliða hækkun bóta almannatrygginga. Að óbreyttu eru bætur atvinnuleysistrygginga að rýrna að raunvirði,“ segir í umsögn ASÍ við frumvarpið.
Vaxtahækkanir hafi töluverð áhrif á greiðslubyrði
Sambandið telur það jákvætt að stigin séu skref til að mæta þeim neikvæðu áhrifum sem vaxandi verðbólga hefur á kjör heimila en forysta ASÍ hefur kallað eftir aðgerðum um nokkurt skeið. Í umsögninni segir að verðbólgan vaxi nú á breiðum grunni sem þýðir að hún fer einnig vaxandi í öðrum liðum en þeim sem alla jafna eru sveiflukenndir, liðum á borð við húsnæði og þróun hrávöruverðs.
Til að stemma stigu við hækkandi verðbólgu hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti nokkuð skarpt að undanförnu. Við síðustu vaxtaákvörðun í upphafi mánaðar hækkuðu stýrivextir um heilt prósentustig, upp í 3,75 prósent. Í sögulegu tilliti eru stýrivextir ekki ýkja háir en þeir nálgast nú meðaltal áranna 2012 til 2018. Á síðustu misserum hafa vextirnir verði einkar lágir, í nóvember árið 2020 voru stýrivextir lækkaðir niður í 0,75 prósent en þeir hafa aldrei verið lægri. Vextir héldust þar fram í maí 2021 og hafa hækkað nokkuð skarpt síðan þá. Því fylgir aukinn kostnaður fyrir heimili með húsnæðislán.
„Ljóst er að vaxtahækkun hefur umtalsverð áhrif á greiðslubyrði lána heimila, sérstaklega nýrra kaupenda sem kaupa á háu raunverði með óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum. Sá hópur getur í dag síður treyst á vaxtabótakerfið til að mæta aukinni vaxtabyrði vegna brattra skerðinga í kerfinu,“ segir í umsögn ASÍ.
Gera má ráð fyrir að verðbólgan hafi ekki enn náði hápunkti sínum og að stýrivextir eigi eftir að hækka enn frekar á árinu. Í nýlegri þjóðhagsspá Íslandsbanka sem birt var í síðustu viku er því spáð að verðbólga verði að meðaltali 7,6 prósent í ár og að stýrivextir verði komnir í fimm prósent fyrir lok ársins.
Bætur dregist aftur úr launaþróun frá 2017
Í umsögn ASÍ er óskýr aðferðafræði við ákvörðun bóta almanna- og atvinnuleysistrygginga gagnrýnd en samkvæmt áðurnefndu frumvarpi munu bætur almannatrygginga hækka um þrjú prósent frá og með 1. júní. Sú hækkun kemur til viðbótar við 4,6 prósenta hækkun sem tók gildi um áramótin. ASÍ bendir á það í umsögn sinni að bætur almannatrygginga hafi dregist aftur úr launaþróun frá 2017, hvort sem þær eru skoðaðar í hlutfalli við lægstu taxta eða sem hlutfall af tekjutryggingu.
Í frumvarpinu er lagt til að hækka stuðning til leigjanda. Þannig munu óskertar húsnæðisbætur hækka um tíu prósent auk þess að frítekjumörk hækka um þrjú prósent og mun hækkun frítekjumarks vera afturvirk frá áramótum. ASÍ bendir á það í umsögn sinni að fjárhæðir húsnæðisbóta hafi staðið í stað að mestu undanfarin ár, frítekjumarkið hefur hækkað en skerðingarhlutfallið líka. Leiguverð hefur aftur á móti hækkað umfram launaþróun á tímabilinu 2011 til 2018.
„Leiguverð hefur verið stöðugt í kjölfar heimsfaraldurs en merki eru um að leiguverð fari nú hratt vaxandi samhliða hækkun eignaverðs og aukinni eftirspurn. Breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu myndu hækka hlutfall húsnæðisbóta í leigu úr 25% í 27% við tekjum í neðri fjórðungsmörkum frá því kerfi sem er í gildi í dag,“ segir í umsögn ASÍ.
Í niðurlagi umsagnarinnar segir að nokkrir hópar séu viðkvæmastir fyrir hækkandi verðlagi og vaxtahækkunum. Það eru þeir sem reiða sig á almannatryggingakerfið, fólk á leigumarkaði, barnafjölskyldur og kaupendur sem komið hafa inn á húsnæðismarkað á síðustu misserum. Í frumvarpinu er einblínt á nokkra viðkvæma hópa og styður ASÍ þá hugmyndafræði að ráðast í sértækar aðgerðir í stað almennra aðgerða.