Ríkisstjórn Bretlands ætti að leggja svokallaðan „hvalrekaskatt“ á bresk olíufyrirtæki, sem skiluðu methagnaði í fyrra sökum skarpra orkuverðshækkana í landinu. Þetta segja talsmenn breska Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata, en samkvæmt þeim væri hægt að fjármagna stuðningsaðgerðir fyrir heimili sem hafa orðið illa úti vegna þessara verðhækkana með slíkri skattlagningu.
Methagnaður hjá olíufyrirtækjum
Samkvæmt frétt BBC skilaði breska orkufyrirtækið BP 12,8 milljarða punda hagnaði í fyrra samkvæmt nýrri tilkynningu, en það er mesti hagnaður fyrirtækisins í átta ár. Hagnaðurinn var einnig í hæstu hæðum hjá Shell, sem skilaði nýlega besta ársfjórðungsuppgjöri sínu frá árinu 2013.
Hagnaðurinn er tilkominn vegna skarpra verðhækkana á olíu og jarðgasi á heimsvísu, en sú verðhækkun hefur einnig leitt til mikilla útgjaldaaukningar á útgjöldum heimila landsins. Samkvæmt viðmælendum Guardian er búist við að heimilin muni þurfa að greiða rúmlega helmingi meira vegna orkunnar sinnar í apríl en þau gera núna, eða tæplega tvö þúsund pund á mánuði. Það jafngildir 337 þúsund íslenskum krónum.
Skattur vegna hvalreka
Verkamannaflokkurinn lagði til í byrjun árs að virðisaukaskatturinn á orkukostnaði heimila yrði afnuminn, en slíkt myndi lækka hann um 200 pund á mánuði. Samkvæmt flokknum gætu olíufyrirtæki landsins fjármagnað hluta af þessari aðgerð, þar sem hægt yrði að skattleggja hluta af þeim hagnaði sem þau hafa orðið fyrir vegna þessara skarpra verðhækkana.
Í kjölfar þess að hagnaðartölur BP og Shell voru birtar hefur þess háttar skattur, sem er kallaður hvalrekaskattur (e. windfall tax), svo fengið aukinn hljóðbyr á meðal stjórnarandstöðunnar í Bretlandi. Rachel Reeves, skuggaráðherra fjármála í landinu, kallaði eftir henni í Twitter færslu sem sjá má hér að neðan, en þar sagði hún einnig að áform ríkisstjórnarinnar til að bregðast við hærri orkukostnaði hafi skilið heimilin eftir með meiri áhyggjur en áður.
BREAKING: Soaring profits from BP, days after Shell recorded ‘momentous’ results.
— Rachel Reeves (@RachelReevesMP) February 8, 2022
The Chancellor’s energy plans last week left families more worried than ever.
It’s time for Labour’s plan for a one-off windfall tax on oil & gas producers to cut bills.https://t.co/dU1iy0eOHG
Guardian greinir einnig frá því að formaður Frjálslynda demókrataflokksins, Ed Davey, sagði að það væri einfaldlega ósnnagjarnt að orkufyrirtækin högnuðust svona mikikið á ástandinu á meðan fólk veigraði sér við að kveikja á ofnunum heima hjá sér.
Fjármálaráðherra Bretlands, Rishi Sunak, hefur hingað til ekki viljað koma á slíkri skattlagningu, en í síðustu viku sagði hann olíufyrirtækin nú þegar greiða mikið í opinber gjöld. Samkvæmt honum myndi meiri skattlagning leiða til þess að fyrirtækin ættu ekki nægan pening til að gera starfsemi sína vistvænni.
Forstjóri BP, Bernard Looney, svaraði á svipuðum nótum í vikunni, en hann sagði við Financial Times að hvalrekaskattur á olíufyrirtæki væri ekki líklegur til að leysa orkukrísuna, þar sem hún myndi koma í veg fyrir fjárfestingar í grænni orkuframleiðslu.
Ekki ný tegund skattlagningar
Samkvæmt umfjöllun BBC hefur breska ríkisstjórnin áður lagt hvalrekaskatt á fyrirtæki. Frægasta dæmið um það er frá árinu 1997, þegar ríkisstjórn Tony Blair skattlagði fyrirtæki sem höfðu verið einkavædd, á grundvelli þess að þau hefðu verið seld á undirverði.
Þar var um að ræða orkufyrirtæki, veitufyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki og rekstraraðila flugvalla. Íhaldsflokkurinn lagði sambærilegan skatt á banka árið 1981 á grundvelli þess að þeir hefðu hagnast óhóflega á háum stýrivöxtum, Sama ríkisstjórn setti síðar sérstakan skatt á þarlend olíufyrirtæki.