Umsögn dómnefndar um hæfi umsækjenda um stöðu Hæstaréttardómara verður ekki vikið til hliðar af Alþingi og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra. Það þýðir að Karl Axelsson hrl. verður skipaður dómari við Hæstarétt. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV. Ólöf Nordal er sögð ætla að bera upp tillögu um þetta atriði á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudaginn.
Staða dómara við Hæstarétt var auglýst í júlí. Þrír sóttu um stöðuna og var það mat sérstakrar dómnefndar að allir væru hæfir til starfans, en mishæfir þó. Dómnefndin, sem eingungis var skipuð körlum, áleit Karl hæfastan umsækjenda til að taka sæti Hæstaréttardómara. Hinir umsækjendurnir voru Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari og settur dómari við Hæstarétt og dr. Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Þau tvö síðarnefndu höfðu bæði meiri menntun og reynslu af dómarastörfum en Karl, sem samt áleit dómnefndin hann hæfastan.