Fréttaskýringarþátturinn Kastljós hefur birt yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni vegna yfirlýsingar sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi frá sér fyrr í dag vegna umfjöllunar um ívilnunarsamning sem ráðuneytið gerði nýverið við Matorku. Yfirlýsing ráðuneytisins var send að beiðni Ragnheiðar Elínar Árnadottur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og þar kom fram að ráðuneytið telji Kastljós hafa farið með rangt mál. Þessu hafnar Kastljós alfarið en segir að mistök hafi verið gerð þegar Benedikt Einarsson var sagður vera eigandi P-126 ehf., eins eiganda Matorku. Kastljós segir þau mistök þó ekkert hafa með athugasemdir ráðherra að gera.
Yfirlýsing frá Kastljósi:
"Í Kastljóssþætti 17.3. var fjallað um fjárfestingarsamning ríkisins við fyrirtækið Matorku ehf. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem segir að Kastljós hafi farið með rangt mál. Svo er ekki. Hlekk á yfirlýsingu ráðherra má finna hér að neðan.
Því var aldrei haldið fram í Kastljósi að Thorsil fengi ekki þjálfunarstyrk í fjárfestingarsamningi sínum. Vísað var í fjárfestingarsamning sem birtur var í stjórnartíðindum árið 2013, vegna fyrirætlana Thorsil um byggingu iðjuvers í Þorlákshöfn. Samningurinn frá 2014 hefur ekki verið samþykktur. Eins hefði mátt vísa til samninga við önnur fyrirtæki sem gerðir hafa verið á undanförnum árum og innifela minni ívilnanir en til handa fyrirtækinu Matorku. Til að mynda samningur við Algalíf sem fjárfesti fyrir tvo milljarða en fékk ívilnanir sem fólu í sér hærri skattprósentu en í tilfelli Matorku. Rétt eins og í samningi við fyrirtækið Marmeti og vegna Stálendurvinnslu á Grundartanga, sem í báðum tilfellum fólu í sér mun minni ívilnanir en gert er ráð fyrir að Matorka fái.
Að gefnu tilefni er einnig áréttað að í Kastljósi var ráðherrann ítrekað spurður út í það hvort önnur dæmi væru af jafn háum ívilnunum í hlutfalli af fjárfestingu eins verkefnis og í tilfelli Matorku. Ráðherra kvaðst ekki geta svarað því.
Í viðtali við ráðherrann var því aldrei haldið fram að samningurinn gerði ráð fyrir því að allur þjálfunarstyrkurinn yrði greiddur út. Í viðtalinu minntist ráðherra heldur aldrei á að fyrir lægi beiðni um 50 milljóna króna þjálfunarstyrk, sem þá myndi setja heildarívilnanir til handa Matorku í 475 milljónir króna, eða 40% af heildarfjárfestingarkostnaði við verkefnið. Hann nefndi heldur aldrei þau hlutföll sem EES-samningurinn leyfir, eftir stærð verkefna.
Eins er rétt að benda á að í Kastljósi var ráðherra ítrekað spurður út í hvort samningarnir við Matorku gerðu ráð fyrir því að fyrirtækið gæti nýtt sér hagstæðari skattprósentu og lægri gjöld jafnvel þótt fyrirtækið stæði ekki við áætlanir sínar í samningnum við stjórnvöld. Tilefni þessarar spurningar var að misræmi er milli fjárfestingasamnings fyrirtækisins við stjórnvöld og fjárfestakynningar fyrirtækisins sem útbúin var nokkrum vikum eftir undirskrift ráðherrans við fyrirtækið. Í samningi við stjórnvöld sagðist fyrirtækið ætla sér að hefja fulla starfsemi á næsta ári en í fjárfestakynningunni er full starfsemi sögð áætluð árið 2018. Í ljósi þess að markmið samnings stjórnvalda við fyrirtækið er að efla atvinnu og liðka fyrir fjárfestingu, er eðlilegt að spurt sé hvort ríkið hafi einhverja fyrirvara á því að fyrirtækið nýti sér ívilnanir sínar, óháð því hver framleiðsla þess og mannaflaþörf verður.
Að lokum má geta þess að umfjöllunin snerist ekki síður um gagnrýni þeirra fyrirtækja í bleikjueldi sem fyrir eru í landinu, en þau hafa byggt upp sína starfsemi án nokkurrar aðkomu hins opinbera. Þykir þeim skjóta skökku við að inn á þann markað geti komið risastórt fyrirtæki sem fái ýmiss konar ívilnanir á þeim forsendum að annars verði reksturinn ekki arðbær.
Ein mistök voru þó gerð í þættinum, sem hafa ekkert að gera með athugasemdir ráðherra. Benedikt Einarsson sendi Kastljósi yfirlýsingu í gær þar sem hann hafnaði því að eiga hlut í Matorku í gegnum félagið P-126 sem skráð er á heimili hans, en sagt í eigu eignarhaldsfélags á Kýpur. Að sögn Benedikts er P-126 eign föður hans, Einars Sveinssonar. Benedikt er þó eins og áður segir stjórnarmaður í Matorku ehf á Íslandi og móðurfélagi þess Matorka holding AG í Sviss."