Katrín Atladóttir, sem kjörinn var í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum 2018, ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu. Frá þessu greinir hún í Morgunblaðinu í dag en orðrómur um þessa ákvörðun hennar hefur lengi verið í gangi. Katrín mun hefja störf hjá Dohop á vormánuðum.
Katrín sat í sjötta sæti á lista Sjálfstæðisflokks í borginni fyrir síðustu kosningar og hefur staðsett sig með Hildi Björnsdóttur í lykilmálum sem óeining hefur ríkt um innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins á yfirstandandi kjörtímabili, sérstaklega þegar kemur að samgöngumálum. Í viðtalinu við Morgunblaðið segir Katrín að hún styðji Hildi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem er framundan.
Katrín hóf formlega stjórnmálaþátttöku með því að setjast neðarlega á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður fyrir þingkosningarnar 2016 og 2017. Hún útilokar ekki endurkomu í pólitík en segir að það muni ekki gerast á næstunni.
Eyþór heldur ekki í framboði
Það eru fleiri úr borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokks sem verða ekki í framboði í vor. Skömmu fyrir jól tilkynnti Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, að hann væri hættur við að gefa kost á sér til að leiða lista flokksins í borginni fyrir komandi kosningar, sem fara fram í maí. Áður hafði Eyþór gefið út að hann sæktist áfram eftir oddvitasætinu að óbreyttu. Auk hans hafði Hildur Björnsdóttir, sem var í öðru sæti á listanum í kosningunum 2018, tilkynnt að hún vildi leiða listann. Enginn annar hefur sem stendur tilkynnt framboð í leiðtogasætið.
Ákvörðunin væri tekin af persónulegum ástæðum, ekki pólitískum. „Ég er þess fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn mun vinna góðan sigur í vor og þeir sem þekkja mig vita að ég óttast ekki niðurstöður í nokkru prófkjöri. Eins er rétt að árétta að ákvörðunin er algjörlega óháð því hvaða fyrirkomulag sjálfstæðismenn í Reykjavík kjósa að viðhafa við val á framboðslista eða hvaða einstaklingar munu gefa kost á sér í því vali.“
Könnun gerð um hver ætti að leiða
Kjarninn hefur rætt við fólk sem tók þátt í skoðanakönnun sem Prósent gerði skömmu áður en Eyþór tilkynnti um breytta ákvörðun þar sem meðal annars var spurt hvort fólki hugnaðist betur að Eyþór eða Hildur myndu leiða Sjálfstæðisflokkinn í borginni. Niðurstaða könnunarinnar hefur ekki verið gerð opinber og ekki liggur fyrir hver greiddi fyrir hana.
Eyþór sagði hins vegar við Kjarnann að ákvörðun hans um að sækjast ekki eftir endurkjöri byggði ekki á því að hann eða aðrir hafi verið að láta framkvæma einhverjar skoðanakannanir þar sem afstaða til hans sjálfs í samanburði við aðra frambjóðendur hafi verið mæld á meðal borgarbúa.