Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ætlar að ræða málefni Ísraels og Palestínu á fundum sínum við Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, annars vegar og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hins vegar. Þetta kom fram í ræðum Katrínar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en hún var spurð um afstöðu og viðbrögð íslenskra stjórnvalda við aðgerðum Ísraelshers.
„Eins og háttvirtur þingmaður kom inn á þá hafa ríflega 200 manns látið lífið Palestínu megin, töluvert færri Ísraels megin, eða u.þ.b. tíu, samkvæmt fréttum þaðan. Fórnarlömbin í þessum árásum eru almennir borgarar, konur og börn. Það liggur algjörlega klárt fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda að þessar aðgerðir eru ólögmætar, þær brjóta í bága við alþjóðalög, alþjóðlegan mannúðarrétt og við höfum lýst þeirri afstöðu okkar,“ sagði Katrín í svari við fyrirspurn Halldóru Mogensen þingmanns Pírata. Halldóra spurði forsætisráðherra hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera í málinu og til hvaða aðgerða hún ætlaði að grípa.
Í ræðu Katrínar kom fram að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefði átt símafund með utanríkisráðherra Noregs til að ræða málið en Noregur á sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. „Við höfum líka minnt á það að Ísland hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og lausn á þessum átökum verður að byggjast á tveggja ríkja lausn. Fyrir liggur að það er afstaða íslenskra stjórnvalda,“ bætti Katrín við.
Katrín sagði að í þessu máli þyrfti samstöðu þjóða til að finna lausn. Hún myndi nýta tækifærið á fundum sínum með utanríkisráðherrum Bandaríkjanna á morgun og utanríkisráðherra Rússlands á fimmtudag til að taka upp þessi mál og hvetja þessi ríki „til að beita sér á alþjóðavettvangi til þess að ná fram friðsamlegri lausn á þessum málum.“
Afstöðuleysi „fullkominn heigulsháttur“
„Ég get ekki annað séð en að svar hæstv. utanríkisráðherra undanfarna daga, það sem við höfum séð í fjölmiðlum, virðist vera að gera ekki neitt nema einhver annar geri það fyrst. Það er það sem við erum að sjá. Það er hægt að hafa alls konar orð uppi en þetta snýst um aðgerðir og við getum alveg sýnt gott fordæmi þó að aðrar þjóðir séu ekki á undan okkur,“ sagði Halldóra í kjölfarið.
Að hennar mati gætu íslensk stjórnvöld leitt leiðina og spurði í kjölfarið hvort afstöðuleysi væri ekki „fullkominn heigulsháttur.“ Þá vakti hún máls á yfirlýsingu þingflokks Vinstri grænna frá því um helgina þar sem landtökustefna Ísraels er fordæmd. „Málfundaæfingar þingflokks forsætisráðherra eru innantómt hjal miðað við þær raunverulegu aðgerðir sem forystuflokkur í ríkisstjórn Íslands gæti sett í gang ef hann raunverulega vildi.“
Megum ekki vera „stikkfrí frá eigin hugsjónum“
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, tók í sama streng þegar hún beindi fyrirspurn sinni til Katrínar um sama mál. Hún hvatti stjórnvöld til að taka af skarið og fordæma aðgerðir Ísraela á Gaza í staðinn fyrir að bíða eftir öðrum ríkjum. „Líf og öryggi milljóna manna veltur á því að vopnahléi verði komið á milli Ísraels og Palestínu. Við getum þrýst á að svo verði og við getum beitt okkur víða í alþjóðasamfélaginu. En við megum heldur ekki að hafa það þannig að við skýlum okkur á bak við það til að vera svolítið stikkfrí frá eigin hugsjónum og hugmyndafræði.“
Þá gerði hún yfirlýsingu Vinstri Grænna einnig að umtalsefni en Þorgerður sagðist vona að hún hafi ekki verið „eingöngu einhver syndaaflausn.“ Þorgerður spurði Katrínu meðal annars um það með hvaða hætti hún myndi taka málið upp við Blinken, hvort hún ætlaði að tala fyrir ályktun þingflokks Vinstri grænna eða tala fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar.
Mikilvægt að koma á vopnahléi
Katrín sagði í svari sínu hafa nýtt öll tækifæri á alþjóðavettvangi til að tala fyrir friðsamlegum lausnum. „Það sem ég mun taka upp við þá ágætu menn sem hingað koma er að mælast til þess að þessi ríki, sem skipta svo miklu máli í alþjóðasamfélaginu, beiti sér í fyrsta lagi fyrir vopnahléi og í öðru lagi fyrir einhvers konar langtíma friðsamlegri lausn,“ sagði Katrín.
Hún sagði mikilvægt að koma á vopnahléi sem fyrst, „því að núna er fólk að deyja, óbreyttir borgarar, karlar, konur og börn, en þar til vopnahléi hefur verið náð getur enginn sest niður til að ræða á hvaða grunni eigi að byggja friðsamlegar lausnir. Þar er afstaða íslenskra stjórnvalda, ekki bara þingflokks Vinstri grænna, algerlega skýr.“