Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eru einu tveir leiðtogar stjórnmálaflokkanna sem fleiri landsmenn segjast bera traust til en vantreysta. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá MMR um traust til stjórnmálaleiðtoga, sem birt var í dag.
Katrín er í sérflokki hvað traust varðar, en 55,2 prósent landsmanna segjast treysta formanni Vinstri grænna, en einungis 22,7 prósent vantreysta henni. Sigurður Ingi formaður Framsóknar nýtur svo traust 38,4 prósenta aðspurðra í könnun MMR, en 26,9 prósent segjast bera frekar eða mjög lítið traust til hans.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokks kemur í þriðja sæti hvað traust varðar, en 29,1 prósent segjast bera traust til hans. Á móti kemur að rúmlega helmingur landsmanna, eða 55,5 prósent, segjast bera lítið traust til Bjarna.
Traust til allra leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna þriggja hefur þó aukist síðastliðin tvö ár, og njóta þeir meira trausts en aðrir leiðtogar í íslenskum stjórnmálum. Síðast þegar það var spurt, í nóvember 2020, sögðust 48 prósent treysta Katrínu, 31 prósent Sigurði Inga og 29 prósent Bjarna.
Leiðtogar Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar eru á fremur svipuðum slóðum í þessari nýju könnun MMR.
20,4 prósent segjast treysta Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, en 43,3 prósent bera lítið traust til hennar. Halldóra Mogensen er fulltrúi Pírata í þessari könnun, og segjast 19,7 prósent treysta henni en 42,5 prósent vantreysta.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar nýtur svo trausts 16,6 prósenta landsmanna, en á móti kemur að 49,7 prósent segjast bera lítið traust til Loga.
Fleiri vantreysta Sigmundi Davíð en Gunnari Smára
Aðrir stjórnmálaleiðtogar njóta minna trausts. 13,5 prósent aðspurðra segjast bera traust til Ingu Sæland formanns Flokks fólksins en 56,1 prósent segjast bera lítið traust til hennar.
Gunnar Smári Egilsson fulltrúi Sósíalistaflokksins nýtur trausts 7,8 prósenta landsmanna, og mælist traust til hans 0,1 prósentustigi hærra en til Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Fleiri segjast bera lítið traust til Sigmundar en Gunnars Smára, eða 76,4 prósent á móti 63,2 prósentum.
Eitt komma tvö prósent landsmanna segjast síðan bera traust til Guðmundar Franklíns Jónssonar formanns Frjálslynda lýðræðisflokksins, en 82,9 prósent segjast bera lítið traust til forsetaframbjóðandans fyrrverandi.
Nánara niðurbrot könnunarinnar má nálgast á vef MMR.