Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna fundaði í morgun með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands.
Samkvæmt tilkynningu frá forsetaembættinu var rætt um viðræður hennar, Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokks og Sigurðar Inga Jóhannsonar formanns Framsóknarflokks undanfarna daga, og þau áform að þessir þrír flokkar haldi ríkisstjórnarsamstarfi sínu áfram.
„Forseti mun áfram fylgjast með gangi mála eftir þörfum,“ segir í tilkynningu embættisins, en eins og sagt var frá á Kjarnanum í gær hafa stjórnarflokkarnir rætt óformlega um verkaskiptingu, fjölgun ráðuneyta og hvaða málefni eigi að vera fyrirferðamest í stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar, náist samkomulag um áframhaldandi samstarf.
Í viðræðum flokkanna er gengið út frá því að Katrín verði áfram forsætisráðherra, en Sigurður Ingi sækist samkvæmt heimildum Kjarnans eftir því að fá fjármálaráðuneytið á grundvelli aukins styrks Framsóknarflokksins eftir kosningar. Viðmælendur Kjarnans hafa sagt að Bjarni sé ekki afhuga þessari niðurstöðu fái Sjálfstæðisflokkurinn fleiri ráðuneyti í sinn hlut í staðinn. Sjálfur myndi hann þá sennilegast setjast í stól utanríkisráðherra.
Hvernig skipting ráðuneyta verður á milli flokkanna að öðru leyti liggur enn ekki fyrir, en búast má við að ráðuneytum verði fjölgað til að höggva á þá hnúta sem gætu komið upp í þeim samningaviðræðum og til að leggja áherslu á helstu stefnumál nýrrar ríkisstjórnar.
Framsóknarflokkurinn hefur þegar kallað eftir því að sérstakt innviðaráðuneyti verði að veruleika með því að húsnæðismál verði flutt yfir til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið og jafnvel einhver verkefni sem verið hafa inni í atvinnuvegaráðuneytinu.
Þá er vilji innan þess flokks að skipta aftur upp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í tvennt þannig að landbúnaði verði gert hærra undir höfði í sérstöku ráðuneyti sem kennt verði við landbúnað og matvæli. Sérstakt loftslagsráðuneyti kemur einnig til greina.
Því gætu ráðuneytin, í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, orðið allt að tólf.