Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, telur ekki ástæðu til að meta hvort skipa eigi rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir söluferli á hlut í Íslandsbanka fyrr en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað um skýrsluna.
Þrír þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðu forsætisráðherra um svör hvort hún sé þeirrar skoðunar að skipa eigi rannsóknarnefnd til að fara yfir söluferlið. Slík nefnd hefur víðtækari heimildir en Ríkisendurskoðun.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar á sölu íslenska ríkisins á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í mars síðastliðnum var birt í morgun, sjö mánuðum og sjö dögum eftir að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, óskaði eftir því skriflega að Ríkisendurskoðun myndi gera úttekt á útboði og sölu ríkisins á hlutnum í Íslandsbanka. Beiðnin beindist að því hvort ferlið hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.
Í skýrslunni er söluferlið á Íslandsbanka gagnrýnt harkalega. Ríkisendurskoðun segir fjölþætta annmarka hafa verið á sölunni. Í niðurstöðu hennar segir að standa hefði átt betur að sölunni og hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn í bankanum. Ákveðið var að selja á undirverði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Huglægt mat réð því hvernig fjárfestar voru flokkaðir og orðsporsáhætta af söluferlinu var vanmetin.
Ríkisendurskoðun metur sem svo að stjórnsýsluúttektin sem stofnunin framkvæmdi sé ekki tæmandi rannsókn á sölunni á Íslandsbanka. Þar er til að mynda ekki tekin afstaða til þess hvort réttmætt hafi verið að selja hlut ríkisins í bankanum á þeim tíma sem það var gert eða til þeirra 207 aðila sem fengu að kaupa. Það heyrir einfaldlega ekki undir Ríkisendurskoðun að rannsaka slíkt.
Fjölmargir stjórnarandstöðuþingmenn kölluðu eftir því að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir söluferlið, en slík nefnd hefur víðtækari heimildir en Ríkisendurskoðun. Því var hafnað af stjórnarflokkunum, meðal annars með þeim rökum að vinna þyrfti verkið hratt og því væri Ríkisendurskoðun betur til þess fallin að sinna því en rannsóknarnefnd.
Þungur áfellisdómur yfir vinnubrögðum fjármálaráðherra
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði að það hvernig ríkisstjórnin muni taka á „Íslandsbankamálinu“ muni skipta sköpum í því hvernig íslenskt samfélag mun komast út úr þeirri traustskrísu sem ríkt hefur síðastliðin 14 ár þegar kemur að fjármálakerfinu og stjórnmálum.
Kristrún sagði skýrsluna þungan áfellisdóm yfir vinnubrögðum fjármálaráðherra „og staðfestir að sala á tugmilljarða ríkiseign var á sjálfstýringu, að ráðherra hirti ekki um að sinna eftirliti og söluráðgjafar fengu frítt spil í söluferlinu“.
Katrín sagði það mikilvægt hvernig hugað er að trausti á fjármálakerfið en ekki síður trausti á stjórnsýsluna og stjórnmálin. „Það er mikilvægt. Í þeirri skýrslu sem nú hefur verið birt kemur fram gagnrýni, bent er á annmarka á sölu á þessum hlut í Íslandsbanka, sem við eigum að taka alvarlega. Við eigum að taka þessa gagnrýni alvarlega og við eigum að bregðast við henni. Þar hygg ég að við séum í öllu falli mörg hver sammála hér á þinginu,“ sagði forsætisráðherra.
Kristrún spurði forsætisráðherra einnig hvort hún væri enn þeirrar skoðunar eftir lestur skýrslunnar að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi uppfyllt skyldur sínar við söluna á Íslandsbanka?
Kristrún sagði það alvarlegt að bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra væru margsaga um söluferli Íslandsbanka. „Því liggur auðvitað beinast við að við munum ekki ljúka þessu máli og það verði ekki leitt til lykta nema sett verði á fót rannsóknarnefnd og rannsóknarskýrsla fari yfir þessa atburðarás, því að við getum við ekki setið undir þessu og þjóðin getur ekki setið undir þessum útskýringum,“ sagði Kristrún, sem spurði forsætisráðherra því næst hvort hún muni beita sér fyrir því að rannsóknarnefnd verði skipuð um málið „svo að við séum ekki svona margsaga um það hér í þinginu?“
„Varð ég fyrir vonbrigðum með þessa framkvæmd? Já,“ sagði Katrín. Margt í skýrslunni olli henni vonbrigðum. „En það er ekki hægt að segja neitt annað en að stjórnvöld hafi beitt sér fyrir því að þetta mál sé allt uppi á borðum hér á þingi þannig að okkur gefist færi á að fara yfir það frá A til Ö.“
Ótal spurningum enn ósvarað
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði ótal spurningum enn ósvarað. „Við spyrjum okkur enn að því hver eigi að axla ábyrgð á þeim fjölmörgu og fjölþættu annmörkum sem augljóslega voru á undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Við spyrjum okkur enn að því hvort fjármálaráðherra hafi verið skylt að fara yfir tilboðsbókina sem Bankasýslan færði honum til samþykkis. Við spyrjum okkur enn að því hvort fjármálaráðherra beri enga ábyrgð á að hafa samþykkt kauptilboð frá föður sínum. Og við spyrjum okkur enn að því hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi uppfyllt eftirlitsskyldur sínar með söluferlinu og sömuleiðis hvort hann hafi yfir höfuð staðið löglega og rétt að sölunni“ sagði Halldóra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þar sem hún beindi fyrirspurn sinni til forsætisráðherra.
Rétt eins og Kristrún spurði Halldóra hvort forsætisráðherra styðji nú að rannsóknarnefnd á vegum þingsins verði falið að rannsaka söluferlið og aðra þætti sem út af standa „í þessu risavaxna hagsmunamáli fyrir almenningi“?
Katrín svaraði á þá leið að það væri kúnstugt að þingmenn vildu strax fara í aðra rannsókn, áður en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gefst kostur á að fjalla um skýrsluna. Nefndin kom saman á fundi klukkan 16 til að ræða efni skýrslunnar.
„Það segir mér kannski að einhverjir séu búnir að gefa sér niðurstöðuna áður en vinnunni er lokið,“ sagði forsætisráðherra.
Halldóra sagði að þó skýrslan svari ekki mörgum spurningum sýni hún svart á hvítu fram á stórfellt gáleysi gagnvart hagsmunum og eignum almennings, ekki aðeins af hálfu Bankasýslunnar heldur líka fjármálaráðherra. „Í raun er furðulegt að hann skuli enn þá sitja sem fjármálaráðherra á meðan verið er að rannsaka þetta stórkostlega gáleysi,“ sagði Halldóra.
„Klúður“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, benti forsætisráðherra á að í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar komi fram að stofnunin telji sjálf að úttektin sé ekki tæmandi rannsókn á sölunni.
„Það voru fjölmargir annmarkar á sölu ríkisstjórnarinnar á Íslandsbanka. Með öðrum orðum nokkuð klúður,“ sagði Þorgerður Katrín, sem spurði forsætisráðherra hvað þurfi að gera til þess að ríkisstjórnin byggi upp traust og trúverðugleika þannig að hægt sé að stíga nauðsynleg skref í því að selja frekari ríkiseignir?
Katrín svaraði því ekki beint og sagði Þorgerður það ekki koma henni á óvart að forsætisráðherra segist ekki bera ábyrgð á neinu.
„Það er bara bent á Bankasýsluna, það eigi að leggja niður Bankasýsluna og þá séum við í góðum málum. Það er engin ábyrgð tekin á þessu klúðri sem kemur fram í vandaðri skýrslu Ríkisendurskoðunar.“
Katrín sakaði Þorgerði um að leggja henni orð í munn. „Ég sagði: Hér erum við komin með góða skýrslu, vandaða skýrslu og að sjálfsögðu þarf að gera eitthvað með það. Það þarf að fara yfir þetta.“