Íslensk stjórnvöld styðja þær ákvarðanir sem þjóðþing Finnlands og Svíþjóðar munu taka varðandi aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Engin breyting hefur orðið á samþykktri stefnu Vinstri grænna (VG).
Þetta kemur fram í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og formanns VG við fyrirspurn Kjarnans þar sem hún er spurð hvort áherslubreyting hafi orðið hjá flokknum varðandi afstöðu til NATO.
Þegar Katrín er spurð hvort hún muni styðja við stækkun NATO segir hún að hún muni styðja þá ákvörðun sem Finnland og Svíþjóð munu taka. Það væri í fyrsta sinn sem formaður VG myndi styðja við stækkun NATO en fyrrum formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, og þingmenn flokksins hafa ítrekar greint frá þeirri afstöðu sinni að Ísland eigi ekki að vera í NATO og þau styddu ekki stækkun bandalagsins.
Íslendingar myndu gera hvað þeir gætu til þess að umsóknin yrði afgreidd með hraði
Finnar og Svíar stefna að því að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu samtímis en innrás Rússa í Úkraínu hefur haft í för með sér gríðarlega viðhorfsbreytingu gagnvart bandalaginu þar sem áhuginn á aðild hefur aukist til muna.
Katrín fundaði í vikunni með leiðtogum annarra norrænna ríkja ásamt forsætisráðherra Indlands. Á fundinum var meðal annars rætt um aðild Finna og Svía að NATO.
Í frétt RÚV um málið kemur fram að eftir fundinn hefðu leiðtogarnir greint fréttamönnum frá því að aðild Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu hefði verið rædd og afstaða hinna Norðurlandanna skýrð.
Katrín ítrekaði afstöðu Íslands og sagði að ef kæmi að aðildarviðræðum myndu Íslendingar gera hvað þeir gætu til þess að umsóknin yrði afgreidd með hraði.
„Ekki heillaspor að framlengja lífdaga þessa hernaðarbandalags“
Afstaða VG hefur hingað til verið skýr hvað NATO varðar en í stefnu þeirra segir að flokkurinn leggi áherslu á að Ísland segi sig úr bandalaginu.
Fyrir stækkun NATO í desember 2003 sagði Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður VG, að það væri niðurstaða þingmanna flokksins að styðja ekki stækkun bandalagsins. „Við erum eindregið þeirrar skoðunar að það sé ekki heillaspor að framlengja lífdaga þessa hernaðarbandalags,“ sagði hann.
Steingrímur taldi að þvert á móti bæri að vinna að því að leggja hernaðarbandalög niður og gæta friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum með lýðræðislega uppbyggðum svæðis- og alheimsstofnunum, eins og stofnuninni um öryggi og samvinnu í Evrópu (ÖSE) og endurskipulögðu öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Sterk öfl hafi ríkra hagsmuna að gæta að NATO stækki
Nýjasta dæmið þar sem þingmenn VG greina frá afstöðu sinni til stækkunar NATO var árið 2019 þegar Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Ari Trausti Guðmundsson, þáverandi þingmenn VG, skrifuðu nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.
Í nefndarálitinu kom fram að aðild Íslands að NATO hefði alltaf verið umdeild. Þjóðin hefði aldrei fengið tækifæri til að láta í ljós skýra afstöðu sína um aðild að bandalaginu með þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Ljóst er að bandalagið er hætt að skilgreina sig eingöngu sem varnarbandalag og hefur tekið að sér verkefni sem fara út fyrir upprunalegan tilgang sinn. Minnihlutinn telur ekki réttlætanlegt að stækka bandalagið frekar að svo stöddu, jafnvel þótt tekið sé tillit til breyttrar stöðu Norður-Makedóníu frá lokum kalda stríðsins. Þrátt fyrir að tekist hafi langþráð samkomulag milli Grikkja og Norður-Makedóníumanna í apríl síðastliðnum um nafn landsins eftir áratuga deilur er það álit minnihlutans að það ágæta samkomulag leiði ekki sjálfkrafa til aðildar að Atlantshafsbandalaginu þrátt fyrir náið samstarf beggja aðila frá 1995.
Við þessa staðfestingu fjölgar aðildarríkjum bandalagsins í 30 og bendir minnihlutinn á að sterk öfl hafi ríkra hagsmuna að gæta að Atlantshafsbandalagið stækki. Er þar sérstaklega um að ræða vopnaframleiðendur, enda eru mörg af mestu vopnaframleiðslulöndum heims aðildarríki bandalagsins sem leggja ríkar skyldur á herðar aðildarríkja sinna varðandi framlög til vígbúnaðar og hermála,“ segir í nefndaráliti Rósu Bjarkar og Ara Trausta frá árinu 2019.
Stækkun NATO „ekki grundvöllur friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum“
Enn fremur var bent á í nefndarálitinu að skömmu fyrir aldamót hefði NATO breytt stefnu sinni á þann hátt að það beitti sér í auknum mæli utan landamæra sinna. „Má þar nefna beina og óbeina þátttöku í styrjöldum og skærum í Afríku og Asíu. Afleiðingar þessara hernaðaríhlutana hafa reynst skelfilegar fyrir íbúa viðkomandi landa og eiga þær þátt í mikilli fjölgun fólks á flótta undan stríðsátökum og afleiðingum þeirra undanfarin ár.
Fulltrúar minnihlutans árétta þá stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu. Það er stefna hreyfingarinnar að hagsmunum Íslands sé best borgið með úrsögn úr bandalaginu. Stríð og hernaður leysa engin vandamál, þótt hernaðarsinnar haldi því fram að barist sé fyrir friði og mannréttindum. Stækkun Atlantshafsbandalagsins er ekki grundvöllur friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum. Það væri heldur gert með styrkingu alþjóðastofnana á borð við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), Evrópuráðið og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.“
Þingmenn VG sátu hjá – „NATO er hernaðarbandalag en ekki krúttlegur friðarklúbbur“
Þingmenn VG tjáðu sig frekar um málið á þingi við atkvæðagreiðslu tillögunnar á sínum tíma en allir þingmenn flokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Rósa Björk sagði að frá stofnun Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefði Atlantshafsbandalagið stækkað og fjölgað aðildarríkjum sínum í þrígang og nú í fjórða skipti.
„Í hvert sinn sem þær stækkanir hafa verið teknar fyrir á Alþingi og farið í atkvæðagreiðslu um þær í þingsal hefur afstaða þingmanna VG ávallt verið sú sama. Þeir hafa skilað minnihlutaáliti í háttvirtri utanríkismálanefnd og setið hjá við atkvæðagreiðsluna, enda er andstaða við veru Íslands í hernaðarbandalagi ein af grunnstoðum í stefnu hreyfingarinnar. Sú afstaða í gegnum tíðina er óbreytt hér í dag, enda gengur stækkun bandalagsins í berhögg við áherslur VG. NATO er hernaðarbandalag en ekki krúttlegur friðarklúbbur. Stækkun Atlantshafsbandalagsins er ekki grundvöllur friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum. Það væri heldur gert með styrkingu alþjóðastofnana, alþjóðasamvinnu, samtala og lýðræðislegra lausna.
Stækkun NATO ekki jákvætt skref í öryggismálum Evrópu
Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður VG sagði við atkvæðagreiðsluna að hún tæki undir með Rósu Björk. „Stækkun Atlantshafsbandalagsins, NATO, er hvorki jákvætt skref í öryggismálum Evrópu né heimsins alls. Það væri mun vænlegra að efla frið, stöðugleika og öryggi í heiminum eftir öðrum leiðum. Ég tek undir það sem hefur verið sagt um styrkingu alþjóðastofnana, samtöl og samvinnu, það er það sem við þurfum einmitt á að halda, ekki bara í friðarmálunum heldur gildir það sama þegar kemur að loftslagsvánni. Hérna þurfum við að tala saman, ekki að mynda bandalög.
Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði munum, eins og komið hefur fram, ekki greiða atkvæði í þessu máli og það er í takti við það hvernig við höfum áður greitt atkvæði í sambærilegum málum,“ sagði Steinunn Þóra.