Þegar 22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka var seldur fyrir viku síðan til valins hóps fjárfesta borguðu þeir 117 krónur fyrir hvern hlut, eða alls 52,65 milljarða króna. Það var rúmlega fjögur prósent undir skráðu gengi bankans á þeim tíma og afslátturinn rökstuddur með því að það væri alvanalegt alþjóðlega þegar stór hlutur í skráðu félagi væri seldur með tilboðsfyrirkomulagi að gefa afslátt.
Við lokun markaða í gær var gengi bréfa í Íslandsbanka 127 krónur á hlut, eða 8,5 prósent yfir því gengi sem var á bréfunum í lokaða útboðinu sem fór fram í síðustu viku. Virði þess hlutar sem var seldur er nú 57,15 milljarðar króna og kaupendurnir hafa því hagnast um 4,5 milljarða króna á einni viku.
Markaðsvirði Íslandsbanka í heild við lokun markaða í gær var 254 milljarðar króna.
Tilgangurinn ekki að fá hæsta verðið
Alls 430 fjárfestar fengu að skrá sig fyrir hlut í Íslandsbanka og var margföld umframeftirspurn eftir þátttöku. Kjarninn hefur rætt við fjárfesta sem voru tilbúnir að greiða að minnsta kosti markaðsverð fyrir hluti í bankanum í útboðinu en fengu ekki það sem þeir sóttust eftir heldur voru látnir sæta skerðingum eins og aðrir tilboðsgjafar. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur enda sagt að megintilgangurinn hafi ekki verið að fá hæsta verðið heldur að tryggja dreifða eignaraðild.
Fyrir liggur að stórir íslenskir lífeyrissjóðir keyptu mest í útboðinu og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti sjóður landsins, er nú til að mynda næst stærsti eigandi Íslandsbanka á eftir íslenska ríkinu, sem á 42,5 prósent, með 5,23 prósent eignarhlut. Gildi er þriðji stærsti eigandi bankans með 5,07 prósent hlut og þá keypti bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækið Capital Group, sem þegar átti 4,5 prósent hlut í Íslandsbanka, viðbótarhlut og á nú 5,06 prósent.
Voru metnir af fyrirtækjunum sem þeir eiga regluleg viðskipti við
Að óbreyttu verða einungis birtar upplýsingar um þá sem eiga meira en eitt prósent hlut í Íslandsbanka og þeir eru sem stendur tíu talsins. Auk þeirra sem nefndir hafa verið hér að ofan Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 4,57 prósent hlut, Brú lífeyrissjóður með 2,1 prósent hlut og Stapi lífeyrissjóður með 1,58 prósent hlut. Auk þess er Arion banki skráður fyrir 1,72 prósent og Landsbankinn fyrir 1,55 prósent hlut, en leiða verður líkur að því að bankarnir séu að halda á hlutum fyrir hönd viðskiptavina sinna sem gerðir voru framvirkir samningar við og að keypt hafi verið bréf fyrir veltubók bankanna. Íslandssjóðir, sjóðsstýringarfyrirtæki í eigu Íslandsbanka heldur svo á 1,55 prosent hlut fyrir sína viðskiptavini, sem eru að uppistöðu lífeyrissjóðir og fjársterkir einstaklingar.
Flestir hinna svokölluðu „fagfjárfesta“ sem fengu að kaupa í bankanum með afslætti eru einstaklingar sem voru metnir hæfir til þátttöku af þeim fjármálafyrirtækjum sem valdir voru sem söluráðgjafar, og eru í mörgum tilvikum þau sömu og umræddir aðilar eiga í viðskiptum við dags daglega. Fyrirtækið á þá að leggja mat á sérfræðikunnáttu, þekkingu og reynslu viðkomandi og hvort hún veiti nægilega vissu fyrir því að hann geti sjálfur tekið ákvarðanir um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felst.
Til að þessir einstaklingar geti talist fagfjárfestar þurfa þeir að uppfylla að minnsta kosti tvö af þremur skilyrðum: í fyrsta lagi að hafa átt umtalsverð viðskipti á viðeigandi síðastliðið ár, eða að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi, í öðru lagi að fjármálagerningar þeirra og innistæður séu samanlagt virði 500 þúsund evra (71 milljón króna) eða meira eða í þriðja lagi að fjárfestir hafi gegnt eða gegni, í að minnsta eitt ár, stöðu í fjármálageiranum sem krefst þekkingar á fyrirhuguðum viðskiptum eða þjónustu.
Vísað í sölu á hlutum í öðrum banka
Umsjónaraðilum hins lokaða útboðs hafa sagt að sá afsláttur sem var gefinn af hlutabréfunum hafi þótti lítill í samanburði við sambærilegar sölur erlendis á árinu 2022, sérstaklega eftir þann markaðsóróa sem skapaðist þegar Rússland réðst inn í Úkraínu fyrir rúmum mánuði síðan.
Hefur þar, meðal annars á fundi fulltrúa Bankasýslu ríkisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins með efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku, verið vísað í sölu á hlutum í NatWest Group, áður þekkt sem Royal Bank of Scotland, en breska ríkið hefur verið að selja sig niður þar í mörgum skrefum á undanförnum árum eftir að hafa tekið yfir félagið í kjölfar bankahrunsins. Það er þó ýmislegt ólíkt með bæði aðkomu ríkissjóðs Íslands að Íslandsbanka og breska ríkissjóðsins að NatWest, auk þess sem söluferlið ytra hefur verið mun langdregnara og stigið í smærri skrefum en það sem ráðist var í hér. Þess utan starfar NatWest á alþjóðlegum mörkuðum, er tvískráður bæði í London og New York og er með viðskiptavini út um allan heim. Bankinn er þegar með verulega dreift eignarhald og síðasti kaupandi að hlutum ríkisins í honum var bankinn sjálfur.
Íslandsbanki gerir upp í íslenskum krónum, þjónustar að uppistöðu íslensk fyrirtæki og heimili og var með 24 þúsund hluthafa í fyrrasumar eftir að hann var skráður á hlutabréfamarkað í byrjun júní. Hluthöfum í bankanum fækkaði á tæpu hálfu ári um 35 prósent, um 8.400, og hluthafahópurinn telur í dag um 15.600 manns. Hlutabréf í bankanum hafa hækkað um næstum 61 prósent frá því að 35 prósent hlutur ríkisins var seldur í honum í fyrra. Sá hlutur hefur hækkað um tæpa 34 milljarða króna í virði frá því að ríkið seldi hann.