Grunnatvinnuleysisbætur voru hækkaðar um 4,6 prósent um síðustu áramót í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga fyrir árið 2022. Verðbólgan hefur hins vegar verið mun meiri og í nýjustu útgáfu Peningamála Seðlabanka Íslands kemur fram að bankinn geri nú ráð fyrir að hún verði 8,8 prósent að meðaltali í ár.
Miðað við spá Seðlabankans um verðbólgu á árinu 2022 þyrfti því að hækka grunnatvinnuleysisbætur, sem eru 313.729 krónum. á mánuði miðað við 100 prósent bótarétt. um 4,2 prósent til viðbótar til að þær myndu halda verðgildi sínu í lok yfirstandandi árs, eða um 13.177 krónur ofan á núverandi bótafjárhæð.
Þetta kemur fram í svari Guðmundur Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, málið sem svarað var skriflega á föstudag.
Kaupmáttur byrjaði að rýrna í júní
Í svarinu segir að í verðbólguspá Seðlabankans sé ekki tilgreind áætluð þróun verðlags milli mánaða á árinu og því sé ekki unnt að leggja mat á raunrýrnun grunnatvinnuleysisbóta sundurliðað eftir mánuðum. „Þegar verðbólga innan ársins hefur hins vegar náð 4,6 prósentum byrja grunnatvinnuleysisbætur að rýrna að raunvirði; með öðrum orðum hefur verðbólgan þá unnið upp þær verðbætur sem tilgreindar eru í fjárlögum fyrir árið 2022 sem ætlað var að mæta áætluðum verðlagshækkunum á árinu 2022 [...] Því má ætla að kaupmáttur grunnatvinnuleysisbóta hafi byrjað að rýrna að raunvirði í júní 2022.“
Aðstæður á vinnumarkaði komu í veg fyrir hækkanir
Jóhann Páll spurði Guðmund Inga einnig hvers vegna grunnatvinnuleysisbætur hefðu ekki verið hækkaðar um sömu prósentutölu og bætur almannatrygginga samhliða mótvægisaðgerðum vegna verðbólgu sem samþykktar voru á Alþingi 24. maí 2022? Hann spurði hann einnig hvort ráðherrann teldi að fólk á grunnatvinnuleysisbótum þyldi betur verðhækkanir en hópar sem komið var til móts við með beinum hætti með áðurnefndum lögum?
Í svörum Guðmundar Inga segir meðal annars að aðstæður á vinnumarkaði, þar sem skráð atvinnuleysi hefur farið lækkandi og eftirspurn eftir starfsfólki hafi verið mikil, hafi haft gert það að verkum að grunnatvinnuleysisbætur hafi ekki verið hækkaðar í takt við verðbólgu. Þá sagði hann að með frumvarpinu sem samþykkt var 24. maí 2022 hefði meðal annars verið lagt til að greiddur yrði sérstakur barnabótaauki og að húsnæðisbætur yrðu hækkaðar í því skyni að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. „Hvorki barnabætur né húsnæðisbætur koma til frádráttar atvinnuleysisbótum og má því ætla að framangreindar aðgerðir hafi nýst einstaklingum sem fá greiddar grunnatvinnuleysisbætur og uppfylla jafnframt skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta eða barnabóta.“