Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila landsins dróst saman um tæplega 1,5 prósent á öðrum ársfjórðungi ársins 2022, sem hófst í byrjun apríl og lauk í lok júní, þegar hann er borinn saman við sama ársfjórðung í fyrra. Þetta er í fyrsta sinn síðan á fjórða ársfjórðungi 2020 sem kaupmáttur ráðstöfunartekna dregst saman.
Ástæða þessa er stóraukin verðbólga, sem nú mælist 9,7 prósent. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.
Þar kemur fram að ráðstöfunartekjur heimila í krónum talið hafi aukist um 9,1 prósent á öðrum ársfjórðungi. Þegar gert er ráð fyrir áhrifum verðbólgu varð niðurstaðan hins vegar sú að kaupmáttur dróst saman. Fleiri krónur komu í veskið, en minna fékkst fyrir þær en áður.
Í tölum Hagstofunnar kemur fram að heildargjöld heimila hafi aukist um tæplega tíu prósent á öðrum ársfjórðungi.
Þar kemur einnig fram að á árinu 2021 hafi kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila aukist um 5,4 prósent samanborið við árið 2020.
Ráðstöfunartekjur efstu tíundar jukust mest í fyrra
Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst heilt yfir umtalsvert á árinu 2021, eða um 5,4 prósent samanborið við árið 2020. Langmesta aukningin var frá miðju síðasta ári og náði hún vel inn á þetta ár, en 7,2 prósent kaupmáttaraukning var á fyrsta ársfjórðungi 2022.
Kjarninn greindi frá því í júlí að í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn, hafi komið fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári hafi tekið til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021.
Hjá þeim tíu prósent heimila í landinu sem höfðu hæstar tekjur hækkuðu ráðstöfunartekjur að meðaltali um ríflega tíu prósent í fyrra, að langmestu leyti vegna aukinna fjármagnstekja. Tekjuhækkun hjá öðrum hópum samfélagsins var mun minni, en kaupmáttur ráðstöfunartekna einstaklinga hækkaði að meðaltali um 5,1 prósent í fyrra.
Því er ljóst að stærstur hluti þeirra kaupmáttaraukningar sem varð í fyrra lenti hjá tekjuhæstu tíu prósentum landsmanna.
Greiðslubyrði lána hækkað skarpt
Frá því að hin skarpa kaupmáttaraukning hófst um mitt ár í fyrra hefur margt breyst. Þar ber helst að nefna að verðbólga hefur stóraukist, með tilheyrandi verðhækkunum.
Til að takast á við hana hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti úr 0,75 prósent í maí í fyrra í 5,5 prósent nú. Það hefur gert það að verkum að greiðslubyrði íbúðalána fjölmargra hefur stökkbreyst.
Á heimasíðu Alþýðusambands Íslands (ASÍ) var nýverið tekið dæmi af breytilegu óverðtryggðu láni upp á 43,2 milljónir króna sem tekið var í fyrravor til að kaupa 90 fermetra íbúð í Kópavogi.
Greiðslubyrði þess láns hefur hækkað um 102 þúsund krónur á mánuði og er nú 266 þúsund krónur. Á ársgrundvelli nemur aukin greiðslubyrði lánsins rúmlega 1,2 milljónum króna.