Karlar undir þrítugu höfðu ýmist lakari eða jafngóð laun að raunvirði árið 2018, miðað við árið 1994. Á sama tíma jókst kaupmáttur fólks á aldrinum 40-64 ára að jafnaði um rúmlega 2 prósent á ári. Þetta kemur fram í grein sem Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og fyrrverandi fjármálaráðherra, skrifar í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Samkvæmt greininni er mikill munur á kaupmáttaraukningu síðustu áratuga eftir aldurshópum, þar sem kaupmáttur ungra hefur aukist mun minna en þeirra sem eldri eru. Þá hefur kaupmáttur kvenna aukist meira en karla, en Benedikt segir það skýrast af aukinni atvinnuþátttöku kvenna, auk þess sem laun kvennastétta hafi líklega hækkað meira en annara.
Að mati Benedikts gefur kaupmáttaraukning karla á sama tíma þó betra spágildi um hækkun raunlauna í framtíðinni, þar sem atvinnuþátttaka þeirra breyttist ekki mikið á milli 1994 og 2018. Samkvæmt henni má búast við stöðugri 1,5 prósent hækkun heildarlauna að raungildi fyrir fólk á aldrinum 40-67 ára.
Kaupmáttaraukning á meðal yngri karla var aftur á móti nokkuð minni, sem gæti gefið til kynna að ekki ætti að búast við jafnháum raunlaunahækkunum í þeim aldurshópum. Fyrir karla undir 27 ára aldri dróst kaupmátturinn meira að segja saman á tímabilinu og fyrir karla um þrítugt hélst hann nær óbreyttur.
Þó bætir Benedikt við að lakari staða karla fyrir þrítugt kunni að endurspegla breyttan vinnumarkað, þar sem störfum í ferðaþjónustunni, sem eru yfirleitt í lægri launaþrepum, fjölgaði mikið á þessu tímabili.
Hægt er að lesa grein Benedikts í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.