Kaupréttaráætlun fyrir starfsfólk Símans var samþykkt á hluthafafundi félagsins í gær. Fram kemur í tilkynningu til Kauphallar að áætlunin er til næstu þriggja ára, eins og áður hafði verið greint frá. Upphaflega lagði stjórn til að hún gilti til næstu fimm ára en því var breytt eftir mótmæli nokkurra lífeyrissjóða í eigendahópi Símans.
Á hluthafafundi í gær var stjórn félagsins veitt heimild til þess að gefa út nýtt hlutafé að fjárhæð 510 milljónir til fimm ára vegna skuldbindinga í tengslum við kaupréttaráætlun.
Stefnt er að skráningu Símans á markað nú í haust. Stærsti eigandi félagsins er Arion banki. Í síðasta mánuði keyptu lykilstjórnendur og fjárfestar fimm prósenta hlut í félaginu á um 1,3 milljarða króna eða 2,5 krónur á hlut. Í kjölfarið var greint frá áformum stjórnar um að starfsfólk gæti keypt hlutabréf fyrir sex hundruð þúsund krónur á ári á sama gengi. Því mótmæltu nokkrir lífeyrissjóðir í eigendahópinum. Þeir töldu að með því að fastsetja verð í fimm ár fram í tímann þá gæti það leitt til þess að starfsmenn fái afhent hlutabréf undir markaðsverði og samhliða muni hlutir annarra hluthafa skerðast. Niðurstaðan var sú að kaupréttaráætlun var stytt úr fimm árum í þrjú.