Keahótel, ein af stærri hótelkeðjum landsins, tapaði 497,3 milljónum króna í fyrra. Rekstrartekjur samstæðunnar lækkuðu um 80 prósent milli áranna 2019 og 2020 og skuldir þess jukust um næstum 600 milljónir króna upp í 1,4 milljarða króna. Þar munar mest um 520 milljón króna lán sem Keahótel tók hjá viðskiptabanka sínum, að hluta til með ríkisábyrgð í samræmi við aðgerðir sem stjórnvöld heimiluðu vegna kórónuveirufaraldursins. Slík lán eru háð tilgreindum skilyrðum og voru einungis veitt til fyrirtækja sem höfðu orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins.
Þetta kemur fram í ársreikningi Keahótel ehf. fyrir árið 2020 sem birtur var í síðustu viku.
Samstæðan rekur samtals níu hótel ásamt tilheyrandi veitingarekstri víðsvegar um landið. Félagið rekur hótelin Apótek, Borg, Skugga, Storm, Sand, Reykjavík Lights í Reykjavík, Hótel Gíg að Mývatni, Kea á Akureyri og Hótel Kötlu í Vík í Mýrdal.
Ríkisbanki breytti skuldum í nýtt hlutafé
Í desember í fyrra var greint frá því að Landsbankinn, helsti lánveitandi þeirra fjárfesta sem átt höfðu Keahótel-samstæðuna, hefði breytt skuldum þeirra í nýtt hlutafé. Eftir breytinguna á bankinn 35 prósent hlut í samstæðunni í gegnum dótturfélag sitt Hömlur ehf.
Sá 65 prósent eignarhlutur er inni í nýju félagi, Prime Hotels ehf. Það var stofnað var í lok nóvember 2020.
Keypt og selt
Áður hafði eini hluthafinn í Keahótel verið félagið K acquisition ehf. Það félag var stofnað utan um viðskipti með Keahótel árið 2017.
Hluti Erkihvannarhópsins hafði raunar komið að hótelkeðjunni mun fyrr, eða árinu 2012, þegar stærstu bitarnir innan hennar voru keyptir. Síðar, samkvæmt umfjöllun Stundarinnar frá árinu 2019, seldu þeir hlutabréf sín í Keahótel tvívegis, fyrst til fjárfestingafélagsins Horns, sem var óbeint í eigu lífeyrissjóða og stýrt af sjóðstýringarfyrirtæki Landsbankans, fyrir rúmlega 1,7 milljarð króna. Í síðara skiptið til K acquisition, þegar bandarísku fjárfestarnir komu inn í það. Þá nam hagnaður annars eignarhaldsfélags í þeirra eigu, Tröllahvannar ehf., vegna viðskiptanna um 1,8 milljörðum króna. Því félagi var í kjölfarið slitið og allar eigur þess, nálægt tveimur milljörðum króna, greiddir út til fjórmenninganna sem áttu Tröllahvönn. Í bæði skiptin endurfjárfestu fjórmenningarnir í Keahótel í gegnum ný eignarhaldsfélög.
K acquisiton hagnaðist vel á nokkurra ára tímabili eftir að kaupin gengu í gegn. Samanlagður hagnaður áranna 2017 og 2018 var 642,7 milljónir króna.
Lýst gjaldþrota og ekkert fékkst upp í milljarða kröfur
Algjör viðsnúningur varð á árinu 2019 þegar K acquisition tapaði 963 milljónum króna, aðallega vegna þess að viðskiptavild var færð niður um 887 milljónir króna. Virði eignarhlutar félagsins í Keahótes lækkaði um 1,8 milljarða króna á því ári, fór úr tæplega 6,4 milljörðum króna í tæplega 4,6 milljarða króna.
Prima Hotels, félagið sem tók við eignarhlut K acquisition í Keahótels ásamt Landsbankanum, hefur ekki skilað ársreikningi vegna síðasta árs.
Nýttu sér öll möguleg úrræði stjórnvalda
Í ársreikningi Keahótels kemur fram að stjórnendur samstæðunnar hafi unnið að aðgerðum til að koma til móts við áhrif kórónuveirunnar og meðal annars nýtt sér úrræði stjórnvalda á hlutabótaleið, frestuðum skattgreiðslum, frestun greiðslna á gistináttaskatti og stuðning vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfrest. Einnig hafi samstæðunni borist uppsagna- og tekjufallsstyrkur.
Engu að síður hafi ekki verið komist hjá uppsögnum starfsmanna vegna mikils samdráttar og tímabundinnar lokunar hótela.
Þá voru gerðir samningar við leigusala um eftirgjöf á leigu og samninga við birga um meðal annars greiðsludreifingu skulda, eftirgjöf skulda, afslátt skulda og frestun á þjónustu vegna lokaðra hótela. Stjórn Keahótels telur að með þeim aðgerðum sem gripið var til á síðasta ári liggi ekki vafi á rekstrarhæfi félaga í samstæðunni.