Fjölmiðlafyrirtækin Torg, Síminn og Sýn styðja heilshugar að Ríkisútvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði, eins og lagt er til í frumvarpi Óla Björns Kárasonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem er nú í meðförum Alþingis eftir að hafa verið endurflutt í upphafi árs.
Samband íslenskra auglýsingastofa er mjög á móti frumvarpinu og telur að það muni spilla fyrir sinni starfsgrein. Blaðamannafélag Íslands er svo á þeirri skoðun að RÚV skuli hverfa af auglýsingamarkaði, en leggur áherslu á að ríkisfjölmiðillinn fái aukin rekstrarframlög til að mæta tekjutapi.
Umræður um auglýsingasölu RÚV eru búnar að vera í deiglunni um langa hríð án þess að nokkrar breytingar séu gerðar, en Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra fjölmiðlamála ítrekaði nýlega að hún vildi sjá RÚV hverfa af auglýsingamarkaði. Hún hefur þó ekki kynnt frumvarp úr sínum eigin ranni um þau mál til þessa.
Auglýsingalaust RÚV í tveimur skrefum
Frumvarpið sem nú liggur fyrir þinginu, sem nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru skrifaðir fyrir auk Óla Björns, felur í sér að RÚV hætti alfarið samkeppnisrekstri á auglýsingamarkaði 1. janúar 2024 og að það verði gert í tveimur skrefum.
Lagt er til að til að á aðlögunartíma sem hefjist 1. janúar 2023 hætti RÚV að stunda beina sölu á auglýsingum, kostun í útsendu efni RÚV verði bönnuð, hlutfall auglýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á hvern klukkutíma í útsendingartíma, auk þess sem óheimilt verði að slíta í sundur dagskrárliði með auglýsingum.
„Ofrausn“ að ætla tvö ár til aðlögunar
Í umsögn Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, Hringbrautar og DV, segir að taka ætti RÚV af auglýsingamarkaði fyrr en áætlað er í frumvarpinu. Þar segir að það sé „ofrausn“ að ætla RÚV svo rúman tíma til þess að gera breytingar og bent á að á síðustu árum hafi einkareknir fjölmiðlar þurft að „laga sig að gjörbreyttu rekstrarumhverfi eins og hendi sé veifað.“
Þeir Sigmundur Ernir Rúnarsson aðalritstjóri Torgs og Jón Þórisson forstjóri fyrirtækisins skrifa undir umsögn fyrirtækisins og segja í henni að RÚV hafi almennt fært sig upp á skaftið í auglýsingasölu á undanförnum árum og sé orðið „óvægnara í söluaðferðum sínum en löngum áður“. Sjálft ríkissjónvarpið hafi yfirboðið annað auglýsingasölufólk á markaðnum til að freista þess að fá stærri sneið af auglýsingafé fyrirtækja, félaga og stofnana.
Þurfi að hugsa um annað en hag einkarekinna fjölmiðla
Samband íslenskra auglýsingastofa (SÍA) segir að skoða þurfi þá ákvörðun að taka RÚV af auglýsingamarkaði í stærra samhengi en einungis með tilliti til einkarekinna fjölmiðla.
Í umsögn sinni segir SÍA að það myndi hafa verulegar afleiðingar á sjónvarpsauglýsingar og neytendur myndu verða af mikilvægum upplýsingum um vörur og þjónustu. Aðrar sjónvarpsstöðvar hafi ekki það áhorf sem þurfi til að standa undir kostnaði við framleiðslu og birtingar.
„Sjónvarpsauglýsingar gegna mikilvægu hlutverki í vörumerkja- og ímyndaruppbyggingu fyrirtækja. Það yrði erfiðara og dýrara fyrir þau að byggja upp virði vörumerkja sinna þegar þau ná ekki augum og eyrum jafn margra. Brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði myndi leiða til verri nýtingar á birtingafé fyrirtækja, hærri kostnaðar og þar af leiðandi hærra vöruverðs,“ segir í umsögn SÍA, sem jafnframt fullyrðir að sú ákvörðun að taka RÚV af auglýsingamarkaði muni ekki auka áhorf á aðrar íslenskar sjónvarpsstöðvar.
„Það þýðir að það fjármagn sem nú fer í auglýsingar á RÚV færist ekki yfir á hinar sjónvarpsstöðvarnar. Líklegasta niðurstaðan er að fjármagn sem nú fer til birtinga á sjónvarpsauglýsingum minnki því framleiðsla á íslenskum sjónvarpsauglýsingum mun dragastsaman. Það mun hafa áhrif á auglýsingastofur og aðrar greinar en fjöldi fólks í mörgum skapandi greinum kemur að framleiðslu íslenskra sjónvarpsauglýsinga, s.s. kvikmyndagerðarfólk, leikarar, stílistar, tónlistarfólk og starfsfólk í eftirvinnslu svo einhver séu nefnd. Það er því Ijóst að ákvörðun um að taka RÚV af auglýsingamarkaði mun hafa mikil áhrif á fjölda fyrirtækja og starfa,“ segir í umsögn SÍA.
Sýn og Síminn telja það til bóta fyrir RÚV að fara af auglýsingamarkaði
Bæði Síminn og Sýn lýsa sig mjög fylgjandi því að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði. Í umsögn Símans segir að það sé raunhæft að stefna að því að gera það í skrefum á fimm árum, án þess að bæta RÚV upp krónu af því fé sem ekki lengur muni streyma inn frá auglýsendum. Ríkisútvarpið hafi nægt svigrúm til að hagræða í sínum rekstri.
Að auki segir í umsögn Símans, sem Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri sölusviðs fyrirtækisins er skrifaður fyrir, að „ánægjuleg afleiðing“ þess að hið opinbera fari af samkeppnismarkaði verði „miklu betra ríkisútvarp“.
„Ríkisútvarp þar sem dagskrárákvarðanir verða loks teknar af dagskrárstjóra en ekki auglýsingadeild. Ríkisútvarp sem leggur rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð í stað þess að gefa pizzur í beinum útsendingum frá verslunarklösum. Ríkisútvarp sem ekki slítur Krakkafréttir frá aðalfréttum vegna útdráttar í fjárhættuspilum. Þannig ríkisútvarp gæti orðið RUV allra landsmanna,“ segir í umsögn Símans.
Í umsögnum frá Sýn um málefni fjölmiðla hefur áður verið talað með þeim hætti að brotthvarf RÚV af auglýsingamarkaði verði RÚV til góða. Í einni umsögn, sem Sýn lætur fylgja snaggaralegri umsögn sinni um þetta frumvarp Óla Björns, segir að staða RÚV muni „að líkindum styrkjast þegar ákvarðanir um dagskrá miðast ekki við áhorfsmælingar og auglýsingatekjur heldur efnistök og gæði.“
RÚV fái meira fé úr ríkissjóði og fyrirsjáanleika til rekstrar
Í umsögn Blaðamannafélagsins er vísað til fyrri umsagnar félagsins um frumvarpið, en þar var því fagnað að umræða færi fram á Alþingi um brotthvarf Ríkisútvarpsins af auglýsingamarkaði.
Höfuðáhersla Blaðamannafélagsins er þó sú „að tryggja beri rekstur RÚV með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði sem vega muni upp á móti tekjutapi þegar auglýsingasölu verður hætt“. Blaðamannafélagið segir sömuleiðis nauðsynlegt að tryggja RÚV fjárveitingu til lengri tíma, til dæmis 8-10 ára í senn og ákvæði þess efnis verði sett inn í þjónustusamning.
„Ennfremur þarf að tryggja sjálfstæði fréttastofu RÚV innan stofnunarinnar, til að mynda með því að girða fyrir það að starfsemi fréttastofu RÚV verði skorin niður, fari svo að fjárveitingar til stofnunarinnar verði skertar,“ sagði einnig í umsögn Blaðamannafélagsins frá því í fyrra.