Kínverska sendiráðið á Íslandi segir í yfirlýsingu á vef sínum í dag að þess sé krafist að Ísland hætti að skipta sér af innanríkismálum Kína og að ákvörðun Íslands um að taka þátt í boðuðum refsiaðgerðum Evrópusambandsins og ríkja á Vesturlöndum vegna stöðu úígúr-múslima í Xinjiang-héraði í Kína grafi alvarlega undan samskiptum Kína og Íslands.
Í stuttri yfirlýsingu sendiráðsins segir einnig að sendiherra Íslands í Kína hafi verið kallaður á teppið í utanríkisráðuneyti landsins og að afstaða Íslands til „svokallaðra mannréttindavandamála“ í Xinjiang-héraði byggi ekki á nokkru nema „lygum og misvísandi upplýsingum.“
Einnig segir frá því í yfirlýsingunni að sú ákvörðun kínverskra stjórnvalda að beita íslenskan mann sérstökum refsiaðgerðum, sem felast meðal annars í farbanni til Kína, séu svar við boðaðri þátttöku Íslands í fyrirhuguðum þvingunaraðgerðum vestrænna ríkja, sem boðaðar voru í mars.
„Við krefjumst þess að Ísland skuli virða fullveldi, öryggi og þróunarhagsmuni Kína og hætti að skipta sér af innanríkismálum Kína undir yfirskyni mannréttindamála,“ segir í yfirlýsingu kínverska sendiráðsins.
Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra staðfesti viðmbl.is í gær að til stæði að Ísland tæki þátt í boðuðum þvingunaraðgerðum gegn Kína vegna mannréttindabrota í Xinjiang-héraði. „Við tilkynntum ríkisstjórninni og utanríkismálanefnd Alþingis það 30. mars,“ sagði Guðlaugur Þór við vefinn.
Meinfýsnar lygar
Maðurinn sem kominn er á svartan lista Kína heitir Jónas Haraldsson. Hann hefur skrifað nokkrar greinar um Kína og Kínverja í Morgunblaðið, meðal annars eina þar sem lagt var til að Ísland og önnur ríki gerðu fjárkröfur á Kína vegna útbreiðslu kórónuveirunnar, sem Kína ætti sök á.
Í yfirlýsingu kínverska sendiráðsins segir að Jónas hafi vegið að hagsmunum Kína með því að breiða út lygar á meinfýsinn hátt.
Íslensk stjórnvöld hafa þegar komið á framfæri mótmælum við fulltrúa Kína vegna þessara aðgerða.