Alþjóðasamfélag sem byggir á lögum og reglum – en hverjir skrifa reglurnar?

Kína mun innan fárra ára sigla hraðbyri fram úr Bandaríkjunum sem mesta efnahagslega stórveldið. Það mun gera því kleift að taka fullan þátt í að setja reglurnar í alþjóðasamfélaginu og það verða Bandaríkjamenn að sætta sig við.

Xi Jinping forseti Kína fær hér lófatak á þingi kínverska kommúnistaflokksins árið 2018.
Xi Jinping forseti Kína fær hér lófatak á þingi kínverska kommúnistaflokksins árið 2018.
Auglýsing

Nýlega áttu Bandaríkjamenn og Kínverjar viðræður þar sem ný stjórn Joes Bidens reyndi að koma samskiptum ríkjanna á réttan kjöl. Í opnunarávarpi sagði Antony Blinken utanríkisráðherra að bandarísk stjórnvöld væru staðráðin í að beita diplómatískum aðferðum til að tryggja hagsmuni sína – og efla lög og reglu í skipan alþjóðamála. Hinn valkosturinn, sagði Blinken, væri heimur hinna máttugu þar sem sigurvegararnir fengju allt og það væri miklu ofbeldisfyllri og óstöðugri heimur. Á honum mátti skilja að Kínverjar hafi ekki aðeins í hyggju að grafa undan forystuhlutverki Bandaríkjanna heldur einnig að koma aftur á heimi þar sem hinn sterki fer sínu fram.

Bandaríkin vilja að Kína fari að reglum – reglum Bandaríkjanna

Eftir að tvípóla valdakerfi kalda stríðsins leið undir lok tók við tímabil þar sem Bandaríkin héldu að miklu leyti ein um stjórnvölinn. Í fyrstu einkenndist andrúmsloftið af létti og vilja til friðsamlegra framfara en undanfarið hafa stærri og dýpri átakalínur verið að koma í ljós. Kína hefur vaxið gríðarlega hratt sem efnahagslegt stórveldi og Rússar tekið sér meira afgerandi stöðu gagnvart því sem þeir túlka sem yfirgang Vesturlanda.

Bandaríkjamenn hafa vanist því að leggja línurnar í heimskerfinu alla tuttugustu öldina og hafa í krafti valds síns ráðið lögum og lofum í helstu alþjóðastofnunum. Út frá sjónarhorni Bandaríkjamanna er það því ískyggileg sýn að Kínverjar geri sig breiða, fari jafnvel að leggja línurnar. Á það ber hins vegar að líta að á sama tíma og Bandaríkjamenn hafa verið í forystu um að setja reglur hafa þeir oft haft sína hentisemi þegar kemur að því að fara eftir þeim. Jafnframt hefur verið bent á að Kínverjar hafa, þrátt fyrir allt, lagað sig að ýmsum þeim alþjóðlegu reglum sem komið hefur verið á.

Kínverjar munu vilja skrifa reglurnar – enda komnir með umboð til þess

Það sem nú breytir stöðunni er að Kína stefnir hraðbyri fram úr Bandaríkjunum hvað varðar efnahagslegan mátt og væntanlega hernaðarlegan í kjöfarið. Kínverjar vilja því sennilega hafa sinn hátt á hlutunum og þar með endurskrifa þær reglur sem ríki heims þurfa að fara eftir. Þeir verða langt í frá einir á báti því vegna hins mikla veldis Kína munu einhver ríki telja hag sínum betur borgið með því að fylgja þeim að málum. Þetta mun enn frekar styrkja stöðu Kínverja við að móta og setja reglur alþjóðasamfélagsins.

Málið snýst því hvorki um hvað Bandaríkjamenn telja tilhlýðilegt þegar kemur að lögum og reglu í skipun heimsmála, né hvort Kínverjar vilji virða þær eða nokkuð af þeim vita. Það snýst um hver ákveður hvaða reglur eigi við, hvar og hvenær, og á 21. öld verða það ekki einungis Bandaríkin og þeirra bandamenn sem hafa rétt til þess. Kína mun verða virkt í samkeppninni við að móta grundvallarheimskerfið – þær hugmyndir, venjur og væntingar sem stjórna alþjóðastjórnmálum. Þetta er samkeppni um viðmið, lögmæti og um hver skrifar söguna.

Auglýsing

Þetta mun langt í frá bara snúast um hugmyndafræðilega aðlöðun heldur miklu frekar hreina og klára viðskiptahagsmuni og hvernig þeir eru best tryggðir. Talið er að í Kína fylgist um hálfur milljarður manna með körfubolta. Gott dæmi um það vald sem hinn risastóri markaður færir er þegar kínversk stjórnvöld stöðvuðu samning upp á einn og hálfan milljarð dollara, sem bandaríska NBA-deildin hafði gert um útsendingar leikja deildarinnar í landinu. Ástæðan var eitt tíst yfirmanns körfuknattleiksliðsins Houston Rockets þar sem hann studdi mótmælendur í Hong Kong, sem hafa barist gegn kínverskum stjórnvöldum.

Valkostirnir: Bandaríkin eða Kína?

Munurinn á bandarískum og kínverskum hugmyndum um skipan heimsmála er tiltölulega skýr. Eins og hér er haldið fram kjósa Bandaríkin fjölþjóðlegt kerfi – að vísu þar sem sum ríki njóta sérstakra forréttinda, þau sjálf einna helst. En þeim er að minnsta kosti frekar umhugað um einstaklingsréttindi og ákveðin frjálslynd grundvallargildi: lýðræðislega stjórnarhætti, réttarríki, markaðsdrifið hagkerfi o.s.frv. Bandaríkjamenn kunna að eiga til að leika einleik í alþjóðasamskiptum og þessum hugsjónum er ekki alltaf framfylgt heima fyrir og stundum af ósamkvæmni erlendis. En heilt yfir er stefnan þó langt frá því að vera bara orðin tóm.

Hins vegar eru Kínverjar hallir undir frekar gamaldags hugmyndir um reglur alþjóðakerfisins, þar sem fullveldi ríkja er í fyrirrúmi, afskiptasemi er mjög illa séð og réttindi einstaklinga eiga ekki upp á pallborðið. Þessi framtíðarsýn þeirra er þó ekki síður byggð á reglum en sýn Bandaríkjanna, eins og sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Kínverjar virða upp að vissu marki. Hún útilokar heldur ekki núverandi alþjóðlegt samstarf um viðskipti, fjárfestingar og mikilvæg mál eins og loftslagsbreytingar. Kínverjar hafa því verið talsmenn fjölþjóðasamstarfs, jafnvel þótt raunveruleg hegðun þeirra brjóti stundum í bága við ríkjandi viðmið.

Wang Yi utanríkisráðherra Kína og Mohammad Javad Zarif utanríkisráðherra Írans undirrituðu samkomulag ríkjanna á milli á dögunum.

Tilkoma Kína sem öflugs mótaðila Bandaríkjanna mun einnig veita öðrum ríkjum fleiri valkosti en þau hafa haft undanfarið. Sem dæmi má nefna Íran, sem hefur forsendur til að verða leiðandi í Mið-Austurlöndum. Refsiaðgerðir Bandaríkjanna gagnvart landinu kunna að vera þungbærar, en olíu- og fjárfestingarsamningur sem Íranir gerðu við Kína sýnir vel hvernig þeir geta virt að vettugi margar þær kröfur sem Bandaríkjamenn setja fram.

Hvort verður ofan á?

Því er spáð að landsframleiðsla Kína verði innan fárra ára orðin meiri en Bandaríkjanna og bilið muni halda áfram að vaxa hratt. Þó er ólíklegt að valdastrúktúr heimsins verði eins tvípóla eins og í kalda stríðinu en ljóst að valdablokkir munu myndast í þá átt. Þetta gæti leitt til hatrammrar baráttu þar sem látið verður sverfa til stáls, t.d. með tilheyrandi leppstríðum, ef ekki beinum milliríkjaátökum. Í augnablikinu virðast núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum þó vilja reyna beita mýkri aðferðum til að ná fram markmiðum sínum.

Það er umsnúningur frá aðferðum Trump-stjórnarinnar sem gjarnan einkenndust af yfirlætislegum flumbrugangi. Bent hefur verið á að þó ekki væri nema að mæta á helstu samráðsviðburði á alþjóðavettvangi, koma fram við aðra þátttakendur af virðingu og sýna samkennd, yrði það bandarískum hagsmunum til framdráttar. Og ef Kínastjórn heldur sig áfram við diplómasíu sem kennd hefur verið við úlfa-stríðsmenn, mun þessi aðferð Bandaríkjanna verða enn áhrifaríkari.

Rétt er að hafa í huga að heimur þar sem óskir Kína væru ríkjandi yrði ólíkur þeim heimi þar sem sýn Bandaríkjanna er ofan á því þarna er ólíku er saman að jafna. Annars vegar er það hin þrönga sýn einsflokks-ríkis sem telur kerfisbundið ofbeldi gegn eigin borgurum og næstu nágrönnum sjálfsagða stjórnarstefnu. Þar helgar tilgangurinn meðalið og gagnrýnisraddir eru jafnan kæfðar – bókstaflega – strax í fæðingu.

Hins vegar er um að ræða heimssýn rótgróins lýðræðisríkis sem byggir þrátt fyrir allt á þrískiptingu ríkisvaldsins, virðingu fyrir einstaklingsfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þjóða. Bandaríkin eru vissulega ekki gallalaus eða alltaf sjálfum sér samkvæm, en valið á milli þessara tveggja kosta ætti að vera nokkuð augljóst. Þegar reyndin er önnur ætti slíkt að hringja viðvörunarbjöllum.

Nýr raunveruleiki – Kínverjar svífast einskis

Milliríkjaviðskipti fara langt í frá alltaf eftir hugmyndafræðilegum línum. Á hinn bóginn þrýsta aðstæður gjarnan á að hugmyndafræðileg prinsipp víki fyrir viðskiptalegum hagsmunum og því þarf að stíga varlega til jarðar. Íslendingar hafa vanist því að sigla á milli skers og báru og eiga viðskipti við þá sem þeim þykir henta, má nefna umfangsmikil milliríkjaviðskipti við Sovétríkin á meðan á kalda stríðinu stóð. Hlutirnir eru þó í eðli sínu öðruvísi nú því Kínverjar haga sér á allt annan hátt en Sovétríkin sálugu. Á meðan Sovétríkin hugsuðu mest um að tryggja sinn bakgarð geysast Kínverjar nú um allan heim til að ná fótfestu, beita til þess gríðarlegum efnahagslegum mætti og svífast einskis.

Þetta þurfa íslensk stjórnvöld að hafa í huga þegar mörkuð er stefna í utanríkismálum, eru utanríkisviðskipti þar með talin. Þessi breytta staða mun enn frekar undirstrika mikilvægi ábyrgrar þátttöku Íslands í alþjóðastofnunum en einnig svæðisbundnu samstarfi eins og NATO, EES og á vettvangi Norðurlandanna, samstarfi sem byggir á virðingu fyrir lögum og reglu. Hefðbundnar stoðir íslensks atvinnulífs eiga enn afgerandi pólitísk tengsl inn í íslensk stjórnmál. Stjórnvöld hafa þó borið gæfu til tala skýrum rómi og forðast að stytta sér leið að efnahagslegum ábata, fram hjá grundvallarreglum um lýðræði, mannréttindi og umhverfisvernd.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Helgason
Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu
Kjarninn 3. ágúst 2021
Minnsti álútflutningur í átta ár
Þrátt fyrir hækkandi álverð á heimsvísu hefur magn útflutts áls minnkað á síðustu mánuðum. Heildarútflutningur á síðasta árshelmingi hefur ekki verið minni síðan árið 2013.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr efst hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður
Listi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur verið kynntur. „Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun,“ segir oddvitinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigmundur Ernir ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins
Jón Þórisson, sem hefur ritstýrt blaðinu frá því haustið 2019 ætlar að snúa sér að öðrum störfum. Sigmundur Ernir verður einnig aðalritstjóri Torgs.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Bólusetningin hafi ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til
Flest smit að undanförnu má rekja til hópatburða en delta afbrigði veirunnar hefur breiðst út á ótrúlegum hraða að sögn sóttvarnalæknis. Til stendur að bjóða þeim sem fengu Janssen bóluefni upp á aðra bólusetningu sem og að bólusetja 12 til 15 ára börn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Náttúruspjöll í Vatnajökulsþjóðgarði
Kjarninn 3. ágúst 2021
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis segir félagið ekki ætla að reyna fyrir sér í byggingargeiranum.
30 þúsund fermetra uppbygging í stað bensínstöðva
Samkvæmt samkomulagi Festis við Reykjavíkurborg á Festi byggingarrétt á lóðum þar sem til stendur að loka bensínstöðvum N1. Félagið hyggst selja byggingarréttinn í stað þess að byggja. „Það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir forstjórinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“
Kjarninn 3. ágúst 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar