Kassadama sem varð forsætisráðherra

Konur í áhrifastöðum mega iðulega sæta háðsglósum og niðurlægjandi umælum. Því hefur forsætisráðherra Finna, Sanna Marin, fengið að kynnast. Hún hefur verið kölluð kassadama, gleðikona, tík og fleira í svipuðum dúr.

Sanna Marin, í miðjunni, ásamt fjórum ráðherrum finnsku stjórnarinnar. 12 af 19 ráðherrum eru konur.
Sanna Marin, í miðjunni, ásamt fjórum ráðherrum finnsku stjórnarinnar. 12 af 19 ráðherrum eru konur.
Auglýsing

Eftir þingkosningar sumarið 2019 urðu stjórnarskipti í Finnlandi. Fimm flokkar stóðu að nýju stjórninni, forsætisráðherra var Antti Rinne leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins. Af 19 ráðherrum voru 11 konur. Antti Rinne sat einungis örfáa mánuði í forsætisráðuneytinu, í byrjun desember 2019 sagði hann af sér í kjölfar verkfalls starfsfólks póstsins. Þá hafði einn stjórnarflokkanna lýst yfir vantrausti á forsætisráðherrann. Ríkisstjórnin sat þó áfram en við starfi forsætisráðherra tók Sanna Marin, varaformaður flokks jafnaðarmanna.

Sanna Marin, sem er fædd 1985, lauk námi í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Tampere árið 2012, og var sama ár kjörin í borgarstjórn Tampere. Árið 2014 varð hún varaformaður Jafnaðarmannaflokksins og settist á þing ári síðar. Þegar Antti Rinne myndaði stjórn sumarið 2019 varð Sanna Marin samgöngu- og samskiptaráðherra. Hún stoppaði stutt í því starfi því 10. desember sama ár tók hún við starfi forsætisráðherra, eftir kosningar í flokki jafnaðarmanna. Hún er yngsti forsætisráðherra í sögu Finnlands.

Fjórar konur, einn karl

Þótt Norðurlöndin hrósi sér iðulega þegar kemur að jafnréttismálum og telji sig standa framarlega í þeim efnum hefur jafnréttið, í gegnum tíðina, ekki náð til forsætisráðherraembættisins. Hér á Íslandi hafa tvær konur gegnt embættinu, Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Jakobsdóttir, sömu sögu er að segja frá Noregi, þar hafa þær Gro Harlem Brundtland og Erna Solberg setið á forsætisráðherrastóli. Í Danmörku hafa tvær konur gegnt embættinu, Helle Thorning-Schmidt og Mette Frederiksen. Finnar hafa þrisvar sinnum haft konu sem forsætisráðherra, Anneli Tuulikki Jäätteenmäki, Mari Johanna Kiviniemi og Sanna Marin. Svíar reka lestina í þessum efnum, ef svo má að orði komast, þar hefur kona aldrei verið forsætisráðherra.

Þótt konur hafi, eins og áður var nefnt, borið skarðan hlut frá forsætisráðherraborði, er annað upp á teningnum núna. Fjórir af fimm forsætisráðherrum Norðurlandanna eru nú konur: Katrín Jakobsdóttir, Erna Solberg, Mette Frederiksen og Sanna Marin. Sú síðastnefnda er þeirra yngst, 35 ára. Fimmti forsætisráðherrann er svo Svíinn Stefan Löfven. Hann er jafnframt aldursforsetinn í ,,forsætisráðherraklúbbnum“ fæddur 1957. Erna Solberg er fædd 1961, Katrín Jakobsdóttir 1976, Mette Frederiksen 1977 og Sanna Marin 1985, eins og fyrr var nefnt.

Vakti athygli

Þegar Sanna Marin kynnti ríkisstjórn sína fyrir fjölmiðlum 10. desember 2019 kom í ljós að af 19 ráðherrum voru 12 konur. Formenn allra flokkanna fimm sem stóðu að stjórninni voru konur og fjórar þeirra, þar á meðal forsætisráðherrann, yngri en 35 ára. Þetta vakti athygli víða um heim. Í viðtölum við fjölmiðla sagði forsætisráðherrann að vel gæti hugsast að þeim sem ekki þekki til finnskra stjórnmála þyki það athyglisvert hve hlutur kvenna væri þar drjúgur ,,okkur þykir þetta hinsvegar sjálfsagður hlutur“. Ráðherrann nefndi að Finnland hefði verið fyrsta landið í Evrópu þar sem konur fengu kosningarétt, það var árið 1906. Og nú eru konur 47 prósent þingmanna á finnska þinginu.

Kjósa einstaklinga

Anne Hollie, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Helsinki, sagði í viðtali að ein ástæða þess hve margar konur sitji á finnska þinginu sé kosningafyrirkomulagið sem sé öðruvísi en víða annars staðar. Í Finnlandi merkir kjósandi við þann einstakling sem hann styður, og þá jafnframt tiltekinn flokk.

Auglýsing

Tarja Cronberg, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, sagði í viðtali við danska dagblaðið Information að móðir sín hefði ætíð lagt mikla áherslu á að konur ættu að kjósa konur. ,,Þegar ég var barn skildi ég þetta ekki en síðar áttaði ég mig á því að þetta væri líklega þyngsta lóðið á jafnréttisvogarskálinni.“

Ekki allir jafn hrifnir

Þótt margir Finnar séu stoltir af hlut kvenna í stjórnmálum deila ekki allir þeim viðhorfum. Skömmu eftir að Sanna Marin tók við embætti forsætisráðherra hæddist Mart Helme innanríkisráðherra Eistlands að finnsku ríkisstjórninni í útvarpsviðtali. Sagði að í stjórninni væri kassadama, götumótmælendur og ómenntað lið. Fleiri orð í svipuðum dúr lét eistneski innanríkisráðherrann, sem er íhaldssamur þjóðernissinni, falla um finnsku stjórnina. Ummælin vöktu mikla athygli og Kersti Kaljulaid forseti Eistlands hringdi samstundis í Sauli Niinistö forseta Finnlands. Í símtalinu baðst hún afsökunar á ummælum innanríkisráðherrans. Finnska stjórnin greindi frá afsökunarbeiðninni í fréttatilkynningu. Eistneski forsætisráðherrann sagði jafnframt frá því í fjölmiðlum að stjórn sín mæti finnska forsætisráðherrann og finnsku stjórnina mikils. Mart Helme sagði síðar að ummæli sín hefðu verið mistúlkuð.

Þessi mynd af finnska forsætisráðherranum vakti mikla athygli. Hefði líklega ekki þótt tiltökumál ef karl hefði átt í hlut.

Sanna Marin birti færslu á Twitter vegna umæla Mart Helme. Þar sagðist hún vera stolt af Finnlandi. ,,Hér getur barn úr fátækri fjölskyldu fengið menntun og látið drauma sína rætast. Jafnvel kassadama getur orðið forsætisráðherra.“ Hún vísaði þarna til þess að sjálf ólst hún upp við kröpp kjör og vann sem unglingur við afgreiðslustörf í stórverslun.

Þess má geta að Mart Helme var knúinn til afsagnar í nóvember á síðasta ári. Þá hafði hann haldið því fram að niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum hefðu verið falsaðar.

Snemma á síðasta ári þegar kórónaveiran var fyrir alvöru farin að láta á sér kræla sagði Mart Helme að venjulegt kvef hefði skyndilega fengið nýtt nafn, væri nú kallað kórónaveira. Hann mælti með að fólk bæri gæsafitu á bringuna, klæddist hlýjum sokkum og yrði sér úti um hitakrem og makaði á kroppinn. Þá hyrfi þetta kvef innan fárra daga.

Rannsóknin sem breyttist

Fyrir nokkrum dögum birtu finnskir fjölmiðlar niðurstöðu sérstakrar rannsóknar sem unnin var að beiðni ríkisstjórnar Finnlands, þeirrar sem sat á undan núverandi ríkisstjórn. Rannsókninni var ætlað að komast að því hvort eitthvað væri hæft í því að Rússar reyndu með skipulegum hætti að blanda sér í finnsk innanríkismál, á netmiðlinum Twitter. Finnska ríkisstjórnin fékk stofnun á vegum NATO, til að annast rannsóknina. Nokkuð dróst að vinna við rannsóknina hæfist og í millitíðinni höfðu orðið stjórnarskipti í Finnlandi. Skemmst er frá því að segja að rannsóknin leiddi ekki í ljós umtalsverð afskipti Rússa. En það var annað sem vakti sérstaka athygli rannsóknarhópsins og hann ákvað að beina sjónum að.

Níð, háð, spott og klúryrði

Þetta sem vakti svo mikla athygli rannsóknarhópsins voru ummæli og athugasemdir um konur sem sitja á finnska þinginu, og ráðherrana. Rannsóknarhópurinn skoðaði mörg hundruð þúsund ummæli og niðurstöðurnar voru sláandi, eins og sagði í skýrslunni. Stór hluti athugasemdanna einkennist af ókvæðisorðum, uppnefnum, hótunum og hatursfullum yfirlýsingum. Stórum hluta þessara ummæla var beint að finnska forsætisráðherranum, hún var til dæmis kölluð hóra, tík, gála, búðarstúlka, föðurleysingi (móðir ráðherrans hefur búið með annarri konu) og fleira í sama dúr. Ríkisstjórnin kölluð tampax-gengið, sokkabuxnastjórnin, tíkur með varalit og fleira af svipuðu tagi. Þótt karlarnir í ríkisstjórninni og á þinginu fái líka athugasemdir eru þær margfalt færri og ekki jafn harðorðar. Rolf Fredheim, einn stjórnenda rannsóknarhópsins sagði að hópnum hefði blöskrað að sjá orðbragðið á netinu ,,við fengum eiginlega hálfgert áfall. Mest kom á óvart hve hatursfull, rætin, klúr og beinlínis dónaleg ummælin í garð kvenna reyndust vera“. Ummæli um klæðaburð kvennanna voru mörg og oftast neikvæð, hinsvegar lítt eða ekki gerðar athugasemdir um klæðaburð karla.

Tilraun til að þagga niður í konum

Skýrslan frá NATO StratCom, eins og rannsóknarstofnunin heitir, hefur vakið talsverða athygli í Finnlandi. Maria Ohisalo innanríkisráðherra sagði í viðtali við finnska sjónvarpið að niðrandi ummæli um konur væru aðferð til að þagga niður í þeim. ,,Þegar rökin þrýtur er gripið til níðs og háðs.“ Forsætisráðherrann skrifaði á Twitter og nefndi þar ýmis orð sem um hana hafa verið látin falla í netheimum. Það fer vel á að enda þennan pistil á lokaorðum finnska forsætisráðherrans í pistli hennar á Twitter: ,,Já, konur eru í forystu í stjórninni. Get over it.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu“
Forsætisráðherra segir að það bíði næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort selja eigi fleiri hluti í Íslandsbanka. Salan hafi verið vel heppnuð aðgerð.
Kjarninn 23. júní 2021
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Miklar sveiiflur hafa verið á virði rafmyntarinnar Bitcoin síðasta sólarhringinn.
Kínverjar snúa baki við Bitcoin og verðið fellur
Verð rafmyntarinnar Bitcoin hefur lækkað umtalsvert á undanförnum dögum en náði sér aðeins á strik síðdegis í dag. Kínverjar hafa reynt að stemma stigu við viðskiptum með myntina þar í landi og nýlega var fjölda gagnavera sem grafa eftir myntinni lokað.
Kjarninn 22. júní 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar