Kínverski ferðarisinn Fosun hefur keypt fimm prósent hlut í bresku ferðaskrifstofunni Thomas Cook, sem er stærsta ferðaskrifstofa Bretlands. Kínverska félagið hefur verið að koma sér betur fyrir á evrópskum ferðaþjónustumarkaði að undanförnu en það keypti franska félagið Club Med í síðasta mánuði.
Fosun greiddi 91 milljón punda fyrir fimm prósent hlutinn í Thomas Cook, eða sem jafngildir rúmlega átján milljörðum króna, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Kínverski ferðaþjónustumarkaðurinn hefur vaxið ógnarhratt á undanförnum árum, samhliða stækkun millistéttar í landinu sem ferðast mikið um heiminn. Fosun hyggst efla þjónustu sína við þennan hóp og selja honum skipulagðar ferðir um heiminn, og einnig selja íbúum Evrópu ferðir til Asíu. Talið er að millistéttin í Kína vaxi um sem nemur um þrjátíu milljónum á hverju ári, eða sem nemur íbúafjölda sem jafngildir rúmlega öllum íbúafjölda Norðurlandanna.
Kína er fjölmennasta ríki heims, með 1,4 milljarða íbúa.