Kjarasamningurinn á milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á almennum vinnumarkaði, sem undirritaður var 3. desember, var samþykktur með miklum meirihluta atkvæða hjá þeim 17 aðildarfélögum SGS sem aðild eiga að samningnum, samkvæmt tilkynningu frá SGS.
Atkvæðagreiðsla á meðal félagsmanna hófst 9. desember og lauk í hádeginu í dag, en kjörsóknin var 16,56 prósent, sem þýðir að rúmlega 3.900 manns greiddu atkvæði um samningana, en alls voru 23.711 manns á kjörskrám.
Af þeim sem greiddu atkvæði sögðu alls 85,71 prósent já, en 11 prósent sögðu nei. Rúm 3 prósent tóku hins vegar ekki afstöðu til samninganna.
Yfir 80 prósent sögðu já í 15 félögum af 17
Í tilkynningu frá SGS segir að niðurstöðurnar hafi verið afgerandi hjá öllum félögum, og að hjá 15 félögum hafi samningurinn verið samþykktur með yfir 80 prósentum atkvæða.
Samningurinn á milli SGS og SA telst því samþykktur hjá eftirfarandi aðildarfélögum Starsfgreinasambandsins: AFLi Starfsgreinafélagi, Öldunni stéttarfélagi, Bárunni stéttarfélagi, Drífanda stéttarfélagi, Einingu-Iðju, Framsýn stéttarfélagi, Stéttarfélagi Vesturlands, Stéttarfélaginu Samstöðu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðs- og sjómannafélagi Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis, Verkalýðsfélagi Snæfellinga, Verkalýðsfélagi Suðurlands, Verkalýðsfélagi Vestfirðinga, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélaginu Hlíf.
Samningarnir gilda frá 1. nóvember
Samkvæmt samningi SGS og SA hækka laun þeirra sem ekki taka laun eftir kauptöxtum, þ.e. eru á mánaðarlaunum, um 33.000 kr. frá 1. nóvember. Desember- og orlofsuppbætur taka jafnframt hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót verður 56.000 kr. á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2023. Kjaratengdir liðir samningsins hækka um 5% frá 1. nóvember og þá hækka bónusar og akkorð í fiskvinnslu um 8 prósent sem mun skila fiskvinnslufólki á bilinu 6.000-34.000 kr. hækkun á mánuði.
Einnig náðist samkomulag um flýtingu hagvaxtarauka sem þýðir að hagvaxtaraukanum sem átti að koma til greiðslu 1. maí 2023 verður flýtt og verður hann að fullu efndur með hækkun 1. nóvember. Það mun skila ávinningi sem nemur 78.000 kr. eða tæpum 6.000 kr. á mánuði og er hann meðtalinn í áðurnefndum taxta- og mánaðalaunahækkunum. Jafnframt var gert samkomulag um að með þessari hækkun og flýtingu komi ekki til frekara endurmats á hagvaxtarauka skv. kjarasamningnum frá 2019.
Um er að ræða skammtímasamning, sem rennur út 31. janúar 2024.